laugardagur, ágúst 27, 2005

Dagur 173 ár 2 (dagur 538, færzla nr. 301):

Nú fer skólinn að byrja eftir ca. viku. Þarf að skrifa ritgerð upp á nokkrar síður - þeir segja að 80 sé nóg. Það er með tvöföldu línubili og spássíðu báðum megin. Varla meira en hvað... 150-200 orð á síðu?

Hmm... 16.000 orð... Ég ætti nú að ráða við það á þremur mánuðum. Verst er að ég þarf að vitna í heimildir. En á móti kemur að það þarf ekki að vera söguþráður. Bara rökrétt framvinda... svona nokkurnveginn.

Ég redda þessu. Þarf bara að sannfæra þá sem öllu ráða um að leyfa mér að skrifa um það sem ég hef í huga. Ég verð að hafa áhuga á þessu til þess að verkið verði almennilega "inspired".

Og nú býst ég við að ég muni þá hafa tíma til að skrifa meira.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Dagur 166 ár 2 (dagur 531, færzla nr. 300):

Um daginn var mér tjáð að sést hefði til mín í tívolíinu niðri á höfn. Ég man ekki til þess að hafa komið þangað. Samt ber sjónarvottum saman um að það hafi vissulega verið ég.

Seinna spurði einn vinnufélagi minn mig hvort ég væri skildur einhverjum gæja sem vinnur í skrifstofunni þarna við hliðina á Fíladelfíu. Sá mun vera afar líkur mér.

Með þetta í huga grunar mig að ég hafi illan tvíbura. Ég veit ekki hvað ég á að gera við því. Það getur ekki verið gott ef einhver þarna úti er að koma á mig einhverju óorði, eins og ég sé ekki fullfær um það sjálfur.

***

Nú fer að styttast í skólann. Mæti þar 5. næsta mánaðar. Gæti þurft að hlusta og lesa. Jafnvel skrifa. Sé til með það. Hvað á ég að skrifa um?

***

Strætó. Það er meira ruglið. Akkúrat þegar það var búið að heimta fleiri stoppustöðvar og fleiri vagna með víðtækara neti, þá er stoppustöðvum fækkað og netið grisjað. Þetta kemur sér afar vel fyrir þá sem vinna í Flytjanda, því vagninn stoppar akkúrat rétt fyrir framan hús.

Svo á að banna alla umferð um vissan part gatnakerfisins. Af hverju? Var ekki nógu slæmt þegar aðeins SVR mátti beygja á vissum stöðum? Djöfulsins kjaftæði. Ég spái veseni þegar þeir ætla að fylgja þessu eftir.

úff.

Í Rúmeníu á dögum Sjáseskú var öllum sem voru of geðbilaðir eða vangefnir til að geta tekið þátt í samfélaginu sendir út í sveit þar sem þeir voru bundnir við koppa sem var tæmt úr anna hvern dag eða svo á meðan þess var beðið að þeir dræpust af sjálfu sér.

Á Íslandi er þetta ekki svona. Hér fær þetta fólk vinnu hjá borgarskipulagi.

laugardagur, ágúst 13, 2005

Dagur 159 ár 2 (dagur 524, færzla nr. 299):

Í gær kom amma heim úr búðinni. Hún hafði gleymt vörunum sem hún keypti þar, svo ég varð að keyra hana þangað aftur.

En hvað um það.

Hún hafði fest kaup á þessari forláta pizzu með 4 mismunandi tegundum af osti. Ostar. Ég man þegar það var bara ein gerð af osti. Sú gerð gekk undir nafninu "ostur", og var sett ofaná brauð.

Jæja. Allavega, það voru þarna á þessu einar 4 gerðir af osti, í mis lífrænu ásigkomulagi. Og þá meina ég þetta: ein gerðin ráfaði makindalega um pizzubotninn og dáðist að tómatmaukinu, á meðan tvær hinna börðust um yfirráð yfir þeirri fjórðu.

Ég reyndi sem best ég gat að hunsa lætin í ostunum á meðan ég hitaði ofninn. Veinin og hvalaópin í þeim voru svo mjög átakanleg rétt fyrst, en hljóðnuðu á næstu fimm mínuútum eftir að pizzan var komin í ofninn.

Og hvernig bragðaðist?

Ekki ósvipað og ostur.

laugardagur, ágúst 06, 2005


Dagur 152 ár 2 (dagur 517, færzla nr. 298):

Þá er bláa myndin komin aftur eftir nokkuð hlé...

Mig svimaði þegar ég vaknaði í morgun. Mig svimaði reyndar í gær líka. Gæti verið allur jólamaturinn sem ég fékk mér um daginn. Of mikil fita í blóðinu. Ég er ekki vanur því að það sé einhver næring í blóðinu.

Hvað um það... Verzlunarmannahelgin var öll hin dularfyllsta. Það var þvílíkt magn af fólki í bænum að ég var eiginlaega hálf-undrandi. Hvað er allt þetta fólk að vilja í borginni um þjóðhátíð?

Það er ekki eins og fólk hafi skyndilega orðið gáfaðara en það hefur áður verið, og áhveðið að vera heldur heima í hlýjunni og slappa af en að veltast um úti í regninu. Það getur bara ekki verið.

Er of dýrt að fara á þjóðhátíð? Líklega. Það gerir löggæzlukostnaðurinn, hækkandi bensínverð, stórlega of hátt verð á áfengi og slíkt. Svo fylgir löggæzlukostnaðinum náttúrlega löggæzla, og hve gaman er nú ekki að vera á þvælingi umkringdur löggum?

En, það gjaldþrot hefur bara ekki stöðvað neinn áður, né heldur löggan. Og löggan hangir hvort eð er bara í hópum til að verða ekki fyrir skakkaföllum.

Fréttir segja mér að það hafi verið afar fá fíkniefnamál. Það skildi ég ekki fyrr en um daginn.

Um daginn... þá frétti ég afhverju fólk fjölmennti ekki á útihátíðir.

Málið er, að VR borgar ekki út laun fyrr en 1. hvers mánaðar, er mér sagt. Sami maður sagði mér að atvinnuleysisbætur væru greddar út 1., eða 2.. Sem sé, eftir þjóðhátíð.

Og hvað þýðir það? Nú, VR menn hanga heima, fara á rúntinn og svona í staðinn, enda eiga þeir engan pening.

Atvinnulausir fá engan pening og komast því hvergi. Og hverjir eru það sem eru á bótum? Stundum óheppnir menn, stundum rónar - en líka dópistar. Þið vitið, þessir sem valda 80-90 af öllum vandræðum á hátíðisdögum.

Já. Það var ekki hert löggæzla sem bjargaði ykkur sem fóruð. Hefði ekki gert það hvort eð er. Neibb. Það er bara kostnaður. Ástæðan fyrir rólegri helgi var að óróaseggir áttu engan pening.

Það, og sumir þeirra voru við Kárahnjúka að vandalisera eigur Impregilo.