laugardagur, júlí 29, 2006

Dagur 143 ár 3 (dagur 873, færzla nr. 433):

Mið-austurlönd, að mínu mati, skifta ekki öll máli. Vegna þess að það er ekkert í flestum þeirra annað en grjót, sandur og rugludallar á Hi-Lux pallbílum. Svona svipað og uppi á hálendi að öllu jöfnu, bara fleiri sprengjur.

Hver er vinsamlegur hverjum?

Ísrael framleiðir rafeindabúnað sem við notum ekki. Líbanon framleiðir ekkert sem ég veit um, Palestína ... grefur jarðgöng. En svo fylla þeir þau alltaf af sprengiefni og eyðileggja þau, það er, ef Ísraelarnir verða ekki á undan þeim. Hvað varðar okkur um þá?

Aftur á móti Danmörk... það er nú annað mál. Það er fullt af drasli sem við fáum sent hingað sem er framleitt í Danmörku. Te, veit ég um. Kex. Morgunkorn. Bang&Olufsen. Ég held samt við myndum lifa af ef Danmörk sykki í sæ á morgun. Við myndum bara flytja inn te og kex frá Bretlandi í staðinn.

það er samt fullt af fólki sem finnst það varða mikið um þetta lið þarna fyrir sunnan. Ég veit ekki af hverju ég ætti að púkka uppá vitleysinga sem hafa búið í flóttamannabúðum síðan 1948. Það er eitthvað óheilbrigt við það. Sem er ástæðan fyrir því að ég er frekar með Ísraelum.

Ég get alveg skilið að þeir líti niður á þessa gaura. Þetta er eins og að hafa risastóran hlemm fullan af rónum sem rölta stundum í garðinn hjá manni og sprengja sig í loft upp. Auðvitað yrði maður svolítið stressaður á því. Ekki ljúga því að mér að það myndi ekki angra ykkur. Það er ekkert hægt að vera fóttamaður í 60 ár. Þessir molbúar lifa ekki einusinni svo lengi!

Og svo eru það þessir rugludallar hjá sameinuðu þjóðunum sem er verið að sprengja aðeins í loft upp. Þeir voru þarna að fá sér tesopa hjá Hezbolla, þegar sprengja lenti á þeim. (Það er það sem þeir gera, ef eitthvað er að marka Reuters.) Og voru þeir hissa? Ó já. Ég hefði skotið á þá viljandi hefði ég séð það. Fífl. Vita þeir ekki að "Hezbolla" þýðir "skotmark" á hebresku?

Þessir vitleysingar þurfa stríð, og þeir þurfa stríð án utanaðkomandi hjálpar. Í það minnsta neita ég harðlega að koma og hjálpa þeim nema gegn almennilegri greiðzlu. Vantar peninginn.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Dagur 140 ár 3 (dagur 870, færzla nr. 432):

Í gær þá komu tvær rollur inn á flugstöð. Þær veltu um koll ruslatunnu og skoðuðu ullarpeysur. Það reyndist snúið að koma þeim út, því það eru sjálfvirkir hurðaopnarar þeim megin sem betra er að hafa þær, og svo flugvöllur hinumegin.

Svo ég útskýri:

Skyljiði?

Jæja. Ég var að reka skepnurnar út í eitt skiftið enn þegar Taxi renndi í hlað. Það þótti rollunum afar spennandi, og þær þutu á vetvang til að skoða, rétt í þann mund er farþegarnir voru að stíga út.

Það var afar litríkt. Kindur hegða sér nefnilega líkt og hundar, og flaðra upp um fólk. Munurinn á kind og hundi er sá að hundar jarma ekki. A.m.k ekki mikið.

Loks tókst Ingiberg hjá flugmálastjórn að lokka kvikyndin inn í sendibíl, og svo fór hann með dýrin einhvert út í óbyggðir og skildi þau eftir þar. Þar geta þau herjað á kanínur og fiðrildi og hver önnur meindýr sem þau hitta.

***

Samkvæmt fréttum í hádeginu ók olíubíll útaf vegna þess að hann var á of miklum hraða. Alveg finnst mér merkilegt hvað hægt er að kenna of miklum hraða um allt.

Maður sest upp í bíl, svo fullur að hann veit ekki hvað snýr upp og hvað niður, og ekur af stað. Skömmu seinna sofnar hann undir stýri og keyrir á staur. Of hröðum akstri verður kennt um þetta.

Maður fer frá potti fullum af sjóðandi feiti. Skömmu seinna kviknar í henni og húsið brennur til kaldra kola. Of miklum hraða er að sjálfsögðu um að kenna, einhvernvegin.

Eldgos byrjar í miðborg RKV og þekur 101 15 metra lagi af hrauni. Enn er of miklum hraða um að kenna. Hverju öðru? Umferðarráð hristir hausinn og rúllar aftur augunum.

***

Smá þraut:

Nefnið einhverjar þrjár vörur sem við kaupum af Ísrael.
Nefnið einhverjar þrjár vörur sem við kaupum af Líbanon.
Nefnið einhverjar þrjár vörur sem við kaupum af Palestínu.

Reglur: þið verðið að nota þetta einhverntíma í hverri viku að jafnaði. Gefist upp? Allt í lagi. Ef svo er, þá getiði byrjað að velta fyrir ykkur af hverju okkur varðar eitthvað um það sem er á seiði milli þessara 3 þjóða.

Sýrland er þarna í grenndinni, og framleiðir smá olíu. Smá, eins og nóg til að sjá sjálfum sér og 2 af þessum þremur löndum fyrir orku. Engan veginn nóg til að valda meiriháttar sveiflum á markaði.

Ekki varðar okkur um villimenn í Afríku, afhverju varðar okkur þá um þessa villimenn? Ég bara spyr?

mánudagur, júlí 24, 2006

Dagur 138 ár 3 (dagur 868, færzla nr. 431):

Eftir enn einn leiðangur niðri í fjöru, þar sem hundurinn fór að sjálfsögðu beint í þangið og grútinn og fékk sér að drekka, ákvað ég að setja dýrið í bað - mynnugur þess hvernig lyktin er. Sjáið til, kvikyndið heldur sér svo oft nærri mér, og mér líkar ekkert við lykt af einhverri fjöru hvar sem ég fer.

Svo ég setti dýrið á baðkarið og smúlaði það. Setti smá sjampó á það og nuddaði á bakið, og svo náttúrlega hárnæringu - þó ég viti ekki alveg hvaða tilgangi hún þjónar. Það tók smá stund að smúla megnið af þessu úr feldinum aftur, og dýrið hafði þann leiða ávana að hrista úr sér vatnið, en þegar ég leyfði dýrinu að sleppa úr pyntinga... ég meina baðinu, þá lyktaði það mun betur.

Það var semsagt jarðaberjalykt af hundinum allan daginn, og gott ef ekki loðir enn við hana, eða það vona ég a.m.k.

Hvernig baðar maður svo hund? Það veit ég ekki...

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Dagur 134 ár 3 (dagur 864, færzla nr. 430):

Ég bókstaflega fékk þetta uppí hendurnar áðan:

Auglýst hefur verið eftir skriflegum ábendingum og athugasemdum við fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur. Breytingarnar fela í sér breytta "Landnotkun á austursvæði Vatnsmýrar "

Fyrirhugaðar breytingar eiga að breyta svæðinu suður af Loftleiðahótelinu sem á að breytast úr svæði fyrir blandaða byggð eftir 2024 í miðsvæði (M5b) sem komi til uppbyggingar á skipulagstímabilinu. Svæðið vestur af hótelinu og suður með Öskjuhlíð sem er nú merkt sem miðsvæði , stofnbraut og og opið svæði til sérstakra nota verði merkt sem blanda miðsvæðis og opins svæðis til sérstakra nota, sem komi til uppbyggingar á skipulagstímabilinu. Á umræddum svæðum er gert ráð fyrir stofnunum og atvinnuhúsnæði vegna uppbyggingar Háskólans í Reykjavík, rannsóknastofnana og annarra þekkingarfyrirtækja, alls 115.000 m2 auk 35.000 m2 íbúðarhúsnæði fyrir stúdenta. Ennfremur er lagt til að Loftleiðasvæðið og svæðið þar norður af verði skilgreint í heild sem miðsvæði (M5a). Á því svæði er gert ráð fyrir alhliða samgöngumiðstöð og starfsemi tengd flugrekstri auk blandaðrar starfsemi sem samræmist landnotkun á miðsvæðum( s.s íbúðarbyggingar). Einnig á að þrengja að flugvellinum með byggingu
göngubrúa og stofnstíga vegna Öskjuhlíðargangna.

Tillagan liggur frammi í upplýsingaskála skipulags og byggingasviðs í Borgartúni 3 1. hæð til 24.júlí 2006.

Senda skal mótmæli inn skriflega og skilmerkilega undirrituð til skipulag@rvk.is fyrir 24.júlí 2006.


Það er meira, en ég kem ekki að því hér. En hvað um það:

Hvað er Miðsvæði? Ég veit það ekki. Ég hef þó heyrt um hluti sem eru miðsvæðis. Að til væri sérstakt miðsvæði, það vissi ég ekki. Það er eins og að til væri einhversstaður. Það verður kannski næst, en mig grunar þó að "grennd" sé næst... nei, bíddu, Grennd er komin. Það fara nefnilega allir hlutir í "grenndarkynningu" núorðið, með ærnum tilkostnaði og veseni.

Og hvernig dettur þessum mönnum í hug að skella skólabyggingum við hliðina á flugvelli? Stafar ekki af því nokkur truflun? Væri ekki betra að reisa þennan skóla annarsstaðar? Til dæmis einhversstaðar nærri höfuðstöðvum Orkaveitunnar? Eða orkuveitunnar. Fer eftir hvernig manni lýst á húsnæðið þá og þá stundina.

Ég tek líka eftir orðinu "stofnbraut". Það er enn eitt merki skipulagsslyss, því að í öllum siðmenntuðum löndum eru "stofnbrautir" hafðar á milli borga og bæja, en ekki á milli hverfa eins og hér tíðkast. Stofnbraut ætti til dæmis að lyggja til Akureyrar. Þangað liggur hinsvegar að því er virðist fyrirbæri sem á annars góðri íslensku nefnist "heimkeyrzla".

Já, það er athyglisvert að á þeim einu vegaköflum á landinu þar sem vegirnir eru gerðir fyrir alvöru hraða skuli umferðarljósum með sínum illu rauðu augum vera skellt niður með óreglulegu millibili.

Oj. Það er athyglisvert að það er sama fólkið sem vill flugvöllinn í burtu og lét "laga" hringbrautina.

Svei. Að lokum legg ég til að höfuðborgin verði flutt til Egilsstaða. (Þið á Egilsstöðum: engar stofnbrautir, enga botnlanga, og bara einstefnu í eina átt í einu takk. Gjörið svo og þið munuð eigi kveljast.)

Amen

mánudagur, júlí 17, 2006

Dagur 131 ár 3 (dagur 861, færzla nr. 429):

Illugi mættur. Með riffil.


Ekki svona samt. Þetta er Carcano, eins og Kennedy var skotinn með. Mikið tæki, það.


Þetta heitir svo Arisaka 38. Það er 7.7 millimetra japanskur herriffill. Virkar ótrúlega vel. Timbrið er hinsvegar búið til úr bambus sem er bara málaður til að líta út eins og timbur...


Þetta er eitthvað sjálfvirkt, tékkneskt. Ljótt. En athyglisvert. Lýtur út fyrir að hafa verið límdur saman úr mörgum minni rifflum.


Þetta er gott á hreindýr. Winchester 1895. Flott, já og nei, en vissulega athyglisvert vopn. Þeir mættu taka þetta upp aftur. Boltarifflar eru ekki jafn rapid-fire.


Þetta er Simonov, eða SKS. Þetta er það sem CCCP hafði áður en AK-47 kom til skjalanna. Þetta langa mjóa þarna undir hlaupinu er spjótsoddur, ef maður skyldi verða skotfæralaus. Sem gerist fljótlega því þetta tekur ekki nema 10 skot.


Þetta sýnist mér vera Mosin-Nagant. Þið getið fengið svona riffil fyrir 20-30 þúsund kall hér einhversstaðar. Ég hef séð þá... í Hlað, held ég. Gott stöff. Nákvæmt.

En Illugi á ekki neitt af þessu... ennþá. Hann var með eitthvað meira líkt þessu:

Þetta er hárnákvæmur riffill. Gæti skotið mús í augað að 50 metra færi. Að vísu er eins víst að músin myndi hlaupa á brott, helsærð, því þetta er ekki nema 4.eitthvað millimetra, en það verður bara að hafa það.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Dagur 127 ár 3 (dagur 857, færzla nr. 428):


Mynd "vikunnar".

Hugsið ykkur ef þið mynduð hitta ykkur sjálf. Þá er ég að meina, eins og ljósrit af ykkur. Einhvern sem hugsar eins og þið og veit alla sömu hlutina. Þið hefðuð sennilega ekki margt að segja við hvort annað.

Hugsið ykkur nú, að þið yrðuð að búa með sjálfum ykkur. Ég held að þið mynduð bráðlega fá að kenna á ykkar eigin þrjósku ef slík er til staðar, og hverskyns stælum sem þið takið sjálf ekki eftir í eigin fari.

Sem færir mig að þeim ykkar sem eiga börn. Börn sem hugsa eins og þið, komast smám saman að sömu hlutunum og þið og hugsa eins og þið. Já. Íhugið nú svolitla stund, að það sem þau gera hafið þið örugglega gert í eigin æsku, eða hefðuð gert hefðuði haft tækifæri til þess.

Já. Það er ég viss um, að ekkert fer meira í taugarnar á foreldrum en þegar börnin taka upp á því að hegða sér alveg eins og þau.

Þannig er það, um það er ég viss.

Munið bara: helvítis kvik... ég meina afkvæmin gera ekki það sem þeim er sagt, heldur það sem fyrir þeim er haft. Sem er náttúrlega óþolandi. Og það sem verra er, þau taka aldrei eftir þeim góðu siðum sem þið teljið ykkur trú um að þið sjálf stundið heldur taka alltaf upp þá hina verstu ósiði sem þið eruð viss um að hitt foreldrið hljóti að hafa kennt þeim.

Hafið það líka í huga að mér er ekkert illa við að sparka í börnin ykkar fari þau í taugarnar á mér, eða ykkur, sé ég í stuði til þess. Reyndar væri ráð, ef krakki fer um með ofbeldi, að taka bara dýrið upp á fótunum og nota það til að lemja á foreldrunum. Það væri alveg smá-kærumáls virði.

Amen

mánudagur, júlí 10, 2006

Dagur 124 ár 3 (dagur 854, færzla nr. 427):

This site is certified 43% EVIL by the Gematriculator

Þar höfum við það. Mér hefur enn ekki tekist að vera nema í meðallagi illur. Afhverju ætli það sé?

Það er svolítið ferlegt að vakna svona snemma. Nema, það er engin umferð, svo maður kemst frekar upp með að dotta aðeins undir stýri. Maður gæti samt alltaf keyrt á ljósastaur, eða hest.

Ég er ekki viss um að ég vilji keyra á hest. Það þarf réttu græjurnar til þess. Mad Max-style grindur yfir framrúðuna og svoleiðis. Það þarf að halda kvikyndunum úti, sko.

Rollur eru allt annað mál. Það er í lagi að keyra á þær nema maður sé á Ferrari eða Lamborghini eða einhverjum öðrum ítölskum síbilandi farartækjum. Það eru einu bílarnir nógu lágir til að valda hættu á rollu innum framrúðuna við árekstur.

Maður þarf nefnilega að plana allar sínar ákeyrzlur á kvikfé fyrirfram. Til að hafa réttu græjurnar.

Best væri náttúrlega að vera með svone beljusköfu eins og var alltaf á járnbrautarlestum. Þið hljótið að hafa séð það í Lukku-Láka bókunum.

föstudagur, júlí 07, 2006

Dagur 121 ár 3 (dagur 851, færzla nr. 426):

Það er kominn tími til að horfa á björtu hliðarnar. Mér er enn hugleikin þessi leyniþjónusta sem óvinir okkar innan ríkisins vilja setja upp, og ég hef verið að velta fyrir mér hvaða kosti það gæti haft að vera með svona leyniþjónustu.

1: við gætum fengið transkript af öllum okkar símtölum. Það nýtist okkur vel, þegar við getum bent á skjal frá ríkinu og sýnt svart á hvítu að: "Þú sagðir það víst!"
2: þið foreldrar munið alltaf geta hringt í þá til að komast að hvar börnin ykkar voru.
3: afbríðissamir elskendur geta alltaf hringt í þá til að tékka hvort annað var að halda framhjá hinu, eða bara að spila golf.
4: einmana fólk getur huggað sig við það, að þegar það situr og talar við sig sjálft, þá er einhver að hlusta.
5: foreldrar geta alltaf frétt þegar unglingurinn var að glannast á bílnum.
6: Þú ert úti í búð, og manst ekki hvað þú átt að kaupa, svo þú hringir í leyniþjónustuna og hún segir þér það. (Þig vantar tvo potta af mjólk, sykur útí kaffið; danskan eins og venjulega, þú sagðist ætla að hafa beikon í hádegismat á morgun...)
7: Ef þú ert búinn með inneignina úr símanum, og þarft að panta pizzu, þá segir þú bara: "Getiði hringt í Domino's fyrir mig og látið senda mér pizzu með nautahakki sveppum og auka osti." Þeir munu heyra í þér og panta hana fyrir þig.
8: Leyniþjónustan mun taka að sér að gefa börnunum í skóinn.
9: Þegar þú hefur týnt lyklunum veistu hvert þú átt að hringja.
10: á ferð í skuggalegust hverfum útlanda munu alltaf elta þig að minnsta kosti tveir spæjarar til að passa uppá þig.

Þar höfum við það. Það eru hugsanlegir kostir við það að hafa leyniþjónustu. Við bara lítum framhjá öllum ókostunum, til dæmis því að hún mun kosta svo mikið að skatthlutfallið mun þurfa að hækka úr 70-80% uppí 140-160%, landsframleiðzla mun minnka um 65-80% vegna þess mannskaps sem þarf í þetta og eikalífsins sem við töpum.

Munið bara: hundurinn mun aldrei týnaast aftur.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Dagur 118 ár 3 (dagur 848, færzla nr. 425):

Það virðist sem loftsteinninn hafi ekki hitt jörðina. Hann hittir þá bara næst. Það verður eftir 10 ár, skilst mér.

Hinar sturluðu systur mínar þykjast enn vera í megrun. Þær segjast vera orðnar svo sílspikaðar að þær komast ekki inn um dyrnar án þess að nota skóhorn. Ég ætla ekki að mótmæla því, enda er eins og allir vita, varasamt að andmæla óðu fólki.

Þetta allt veldur því að þær eru í megrun. Ekkert gos, ekkert nammi nema á laugardögum og þeim dögum þegar það er til nammi og hinar systurnar sjá ekki til. Svo verða þær að borða heilsumat, en það er fæða sem er svo eitruð að fólk sem borðar hana hefur átt það til að leysast upp og hverfa að lokum í gufuskýi sem dreyfist um óravíddir himingeimsins í næstu vindkviðu.

Þetta væri ekki svo slæmt, ef þetta væri ekki farið að hafa slæmar afleiðingar á hvað er til í ísskápnum: ekkert kók, ekkert pepsí, ekkert appelsín. Svei.

Ég hef þó reynt að halda uppteknum hætti eins og ég get. Í vinnunni hef ég aðgang að kaffi, sem ég get dælt í eins miklum sykri og mér sýnist, og ég get notað eins mikla olíu eða smjör eða hvað sem er til að steikja eggjaköku.

Og ekki þyngist ég.

Systur mínar eru að mínu viti haldnar órum. Ég veit ekki hvaðan þær hafa fengið þessar hugmyndir. Ekki kennum við þeim þetta hér heima. Ég held að þetta sé allt vinkonum þeirra að kenna. Það ætti að flengja þær.