sunnudagur, apríl 29, 2007

Dagur 52 ár 4 (dagur 1147, færzla nr. 543):

Ég var að velta fyrir mér hvað það kostar að byggja í Borg Óttans. Við gefum okkur að maður vilji byggja einbýlishús. Gott, þá þarf lóð. Borgarstjórn er ánægð að selja okkur eina á okurverði, eða 11 milljónir. Í eyjum er hægt að fá hús fyrir það. Hús á lóð. Og bíl. Í Ólafsfirði er hægt að fá götu með nokkrum húsum. Kannski líka bíl.

Nú, mér skilst á auglýsingum sem ég hef fengið frá bankanum, að ég geti fengið lán með 5% vöxtum.

Allt í lagi, 5% vextir af 11 millum er 550.000 á ári. Það gerir 45.900 kall á mánuði, bara vextirnir. Segjum sléttar 50.000, og þá borgast höfuðstóllinn upp á... 183 árum. Eða aldrei, semsagt. Svo við þurfum að borga 60K á mánuði minnst, bara til að eiga lóð, og búa í tjaldi á henni. En sniðugt.

Launin sem maður þarf að vera á þá eru: 60K fyrir lóð, eða 720K á ári, 200 fyrir bíl, eða 60 fyrir strætó (og mæta þá kvefaður og of seint í vinnuna - OG heim!), 20-50K fyrir mat, og hvað meira? Áttu börn? 2000 kall á dag, stykkið. Sleppum þeim, ég held ég eignist engin svoleiðis hvort eð er.

Talan er: 800-970K á ári fyrir barnlausan einstaking í tjaldi. Þá verður viðkomandi að þéna 67-81K á mánuði eftir skatt til að standa á sléttu. Sem er bara ekkert gaman. Það er alveg hægt, en þetta er bara lóð, munið?

Og ef þú vilt hús ofaná lóðina?

Hvað kostar hús? 50 fermetra kofi er svona 4-5 millur, 185 fm hús er á um 10-11 (sjá link - snjóhús, hin gerpin eru ekki með verðlista.). Þá þarf að punga út öðrum 60 K á á mánuði, sýnist mér.

Sko: raunsætt verð fyrir almennilegt hús (sem manni verður svo bannað að smíða því þakið á því lekur ekki, eða það er ekki nógu ljótt og fellur því ekki inn í götumyndina, eða einhverjum hjá borginni er illa við þig því þú ert ekki í flokknum, eða hefur engar vörtur á nefinu eða eitthvað) er svona 15 milljónir, tilbúið til búsetu.

11+15= 26, sem þýðir 109K á mánuði bara í vexti. Þetta verða líklegast 150.000 á mánuði þá. ARG!

Og launin sem maður þarf þá að hafa eru: 150 á mánuði í húsnæði, eða 1800K plús 240-600 í mat og 200 í bíl á ári = 2.1 - 2.6 millur á ári = 175 - 220 á mánuði, eftir skatt.

Sko, í álverinu fær maður alveg 175K á mánuði, en hey! Fær maður aldrei að fara í frí? Aldrei bíó, aldrei neitt. Og ef þú átt krakka... suss. Þú munt fara á hausinn. Nema þú farir að vinna í KB banka sem einhvert númer.

Það var líka að renna upp fyrir mér að maður verður að vera á eldgömlum bíl, og húsgögnin verða að vera gefins/stolin.

Það er engin furða að fólk búi frekar í Hafnarfirði, Garðabæ eða í Keflavík. Það svarar kostnaði að keyra. Þá gefst líka meiri tími til að hlusta á Motorhed...

(við skulum svo gera okkur grein fyrir því að þetta stendur og fellur með því að maður geti fengið lán með 5% vöxtum. Gangi ykkur vel með það.)

laugardagur, apríl 28, 2007

Dagur 51 ár 4 (dagur 1146, færzla nr. 542):

Hve langt er þangað til nammi verður bannað? það mun byrja með merkingum á gúmmíköllunum: "Gúmmíkallar drepa" & "Gúmmíkallar innihalda sykur, sem er ávanabindandi fíkniefni," & "sykursýki getur valdið missi útlima" meðfylgjandi verður mynd af manni með staurfót. Á hækjum. Með sorgarsvip.

Auðvitað valda gúmmíkallar ekki sykursýki, en haldiði í alvöru að liðið sem boðar og bannar hafi einhvern áhuga á sannleika?

Forræðishyggjumaður: "Sjáðu! Ef við sprengjum 5 kíló af TNT á stuðaranum á þessum bíl er það alveg eins og ef hann klessir á vegg á 150!"
Fréttamenn: "Ú! A!"
Forræðishyggjumaður: "Allir sem aka á meira en löglegum hraða eru hryðjuerkamenn!"
Fréttamenn: "Ha?"
Forræðishyggjumaður: "TNT!"

Aha... ef þú ekur á 150 kílómetra hraða... þá munu þeir setja TNT á bílinn þinn... ??? Hvar eru svo þessi slys sem orsökuðust af of hröðum akstri? Það hefur enginn sagt það ennþá. Hvorki mér né öðrum.

(Reyndar hefur Reynir Helgi bent á að þegar kemur að slysum, er allur hraði of mikill. Það er nefnilega svo, að 2 kyrrstæðir hlutir munu aldrei snertast, sem er alger forsenda árekstra. En ekki dugir okkur að sitja bara kjur og gera ekkert. það væri verra en öll slys.)

Það eru líka skuggalega margir orðnir hryðjuverkamenn núorðið: eiturlyfjasalar, vegfarendur, flugfarþegar...

Næsta skref er fólk sem fær sér nammi. Þú borðar gúmmíbirni, ergo, þú ert terroristi. Vegna þess að feitt fólk fær sér oft gúmmíbirni/kalla.

Við þurfum nauðsynlega að róa að því öllum árum að manneldisráð fái aldrei völd. Þeir urðu fúlir þegar verð á gosi lækkaði með annarri neyzluvöru hér um daginn. Þótti það ótækt. Vildu beita neyzlustýringu, sem hefir að mér virðist alltaf virkað þannig að þegar óhollar vörur sem fólk vill hækka í verði hættir fólk að neyta þeirra hollu vara sem það þó neytir til þess að eiga fyrir óhollustunni. Sem er mjög hollt, að sjálfsögðu.

Og það mun verða beitt refsingum með tímanum: fyrst eru menn sektaðir fyrir að borða gúmmíkalla á almannafæri, svo verður fólki stungið inn fyrir að smygla inn pepsíi, og mjög feitt fólk verður skikkað í megrun.

Fiskur og salat í öll mál, því það er svo hollt. Svo fáum við öll niðurgang vegna E-kólí í salatinu og þungmálmaeitrun og orma úr fiskinum.

Rakst á sögu með þessu plotti.

Svei! Á móti kemur, að þá verður mannát alveg góð hugmynd: fullt af hægfara og sljóum grænmetisætum, þjáðum af B-vítamín og sykurskorti.

Svo kemur löggan. Það verður heimins skemmtilegasta umsátur. Maður tilkynnir bara reglulega að maður ætli að gefast upp, og hleypir þannig löggunum inn í hollum. Svo er bara lokað, og ekki gefist upp aftur fyrr en sá skammtur er búinn. Allt voðalega fit fólk, að sjálfsögðu.

Zeró sykur, alger greindarskerðing. Maður þarf kolvetnin til að hugsa. Og kjöt.

Verum frjáls, verum hryðjuverkamenn. Fáum okkur gúmmíkall. Og Kók, því það fer svo í taugarnar á manneldisráði. Og það er gott fyrir heilann.

föstudagur, apríl 27, 2007

Dagur 50 ár 4 (dagur 1145, færzla nr. 541):

Sá um daginn - held örugglega á miðvikudaginn - þessa bjána í umferðarforræðinu sprengja þennan Volvo í loft upp. 5 kíló af TNT. Ekki beint öflugasta sprengiefni í heimi, en hey... all in good fun.

Og nú vitum við hvað gerist ef maður lendir í því að teroristi setur 5 kíló af TNT á stuðarann á Volvónum manns og detinetar það þegar bílnum er lagt fast upp við steinvegg.

Við þurftum öll að vita það.

Nú þurfum við bara að komast að hvað gerist ef Volvo 244 er ekið á steinvegg á 150 kílómetra hraða. Ég þori að veðja að útkoman mun verða áberandi öðruvísi. Og flott. Alveg virkilega flott.

Jæja: Hér er verið að misþyrma Toyotu Auris með bunka af álþynnum, staur, og svo frv. Árekstur við téðar þynnur á um 50 km/h.

Víetnam-bíll vs. steinveggur á... hraða? var ekki 60 standardinn þá? Mér sýnist þetta vera meira í lýkingu við 150... úff!

Trukkur á 100 kmh vs röð af bílum.

Volga vs. álþynnur á 64 km/h.

Fjör!

Ljósastaur vs. Fiesta

Já. Þetta var skemmtilegt. Ekkert TNT þó. Ekkert lýkt því einusinni.

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Dagur 47 ár 4 (dagur 1142, færzla nr. 540):

Var úti að keyra í gær. Fyrri það fæ ég víst greitt. Ók framhjá þessu ljósi aftur. það blikkaði mig, og það kom mynd af fílukalli. Jamm, ljósið birti mér fílukall. Dásamlegt. Ég man að ég ók þarna einusinni framhjá miklu hraðar, og fékk fílukall þá líka. Reyndar man ég ekki til þess að hafa fengið annað en fílu, sama hve hratt ég hef ekið.

Nú er illt í efni, því bíllinn kemst ekki hraðar en 100, kannski 120, og ég veit ekki hve hratt þarf að aka til að fá broskall. Og þessi bíll er nú enginn Ferrari.

Svo ég segi: Fokk Jú fílukall. Blikkaðu bara. Mér er sama. Jájá, sýndu bara Steingríms J eftirhermuna þína. Helvítis kryppildi, alltaf í fílu, sama hvað. Tek ekki mark á svona löguðu.

mánudagur, apríl 23, 2007

Dagur 46 ár 4 (dagur 1141, færzla nr. 539):

Það styttist í kosningar. Rétt up hönd sem halda að þær fari öðruvísi en venjulega. Rétt upp hönd sem halda að það séu einhverjir hægri flokkar á íslandi.

Sko, það eru Kommar, það eru Fasistar, og það eru Frjálslyndir Demókratar.

Svo ég útskýri:

VG eru kommar. Þeirra helsti vandi er að Sovétið er hrunið, og sendir þeim ekki lengur stefnumálin beint frá Kreml. Ég held ég hafi sagt það áður. Bófar og landráðamenn, alltsaman.

Samfylkingin er Fasískur flokkur: Til að vera fasisti þarf maður að vera sósíalisti: tékk. Til að vera fasisti þarf maður að eiga óvinnandi óvin: tékk. Til að vera fasisti þarf maður að vilja sterkan Foringja: tékk.

Þeir hafa það allt: þetta eru vissulega sósíalistar; hlustið bara á allt þetta röfl um að fjölga barnaheimilum og það eigi að gefa öryrkjum alla peningana okkar.
Þau eiga líka fullt af óvinum, í gegnum kvennalistann alla karlmenn (ég sagði ekkert um að óvinurinn yrði að vera 1: til í alvöru, eða 2: einhver óvinur þeirra), Sjálfstæðismenn, og örugglega fleyri.
Og þau vilja sterkan Foringja: Ítalía hafði sinn Mússólíni, hann gerði ekkert marktækt; Júgóslavía hafði sinn Tító bandídó - viðurnefnið segir allt sem segja þarf; og Portúgal hafði sinn Szalazar. (Þið hélduð að ég myndi nefna einhvern annan! Hah!)

Já já já, ég veit þið viljið ekkert vera bendluð við Fasista, en það orð hefur bara verið notað sem blótsyrði svo lengi, að það veit enginn hvað það þýðir. Lærið, fíflin ykkar.

Mitt á milli S & VG er Framsóknarflokkurinn. Þeir eru Lénsræðismenn. Það verður best útskýrt með kvótakerfinu: Yfirvaldið á kvótann, og útdeilir honum til lénsherranna, sem selja hann til bændanna. Þeir sem eru ekki bændur fá ekki neitt. Þjóðareign? Jæja...
Svo er mjólkurkvóti, takmörk á fjölda leigubíla, það má ekki smíða hvað sem er á eigin lóð og svo framvegis. Þetta er lénsræði. Feudal system.

Sjálfstæðisflokkurinn er líberal-demókrataflokkur. Svolítið þjófóttir eins og kommarnir, (ég þekki persónulega mann sem hefur átt í vandræðum með land, og það eru víst fleiri) og svolítið gjarnir á að stjórna eins og feudalistarnir, (Ekki leggja þeir niður kvótakerfið, eða RÚV) með sterkan leiðtoga alveg eins og Fasistar, en þessi blanda er samt bara dæet útgáfan af öllu hinu.

En Fasistarnir vilja ekki kjósa þá því þeir smíða ekki nógu mörg barnaheimili, Framsóknarmenn vilja þá ekki því þeir afsala sér of miklum völdum til manna sem eru ekki í ríkinu (það var nú eitthvað reynt að taka fyrir það, en það var orðið of seint) og kommarnir vilja ekki sjá þá því þeir leyfa mönnum að komast upp með það nær refsilaust að eiga ekki bara eignir, heldur hafa tekjur líka. Sem er náttúrlega skandall.

Hinn Frjálslyndi sósíalistaflokkurinn er Frjálslyndi flokkurinn. Þeir eru alveg eins nema hafa eitthvað á móti kvótakerfinu.

Og þar sem Íslendingar eru allir fasistar, nema þessi 10% sem eiga pening inní banka og eru því frálshyggjumenn, og þessi 10% sem öfunda þá og eru því Kommar, þá kjósa flestir yfir sig Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og Framsókn. Allir aðrir munu fá samanlagt 15% fylgi, sem skiftir engu máli. Kannski 5-6 menn inn.

Ég tek ekkert mark á skoðanakönnunum.

föstudagur, apríl 20, 2007

Dagur 43 ár 4 (dagur 1138, færzla nr. 538):

Þá er þetta blogg búið að vera til í 1138 daga. Ekkert um það að segja svosem. En mér þótti talan kunnugleg - svo ég gúglaði henni, og fann þessa mynd. Auglýsing fyrir "THX-1138", eftir Georg Lúkas. Það var afar slæm mynd. Ekki horfa á hana nema ykkur hafi fundist "2001" eitthvað góð.

Um daginn fór ég í Stúdentakjallarann að horfa á bíó. Náði seinni hluta einhverrar myndar um gæja sem er í Kúbu þegar kommarnir eru að taka völdin. Enginn hasar eða neitt, bara fleyri skriðdrekar úti á götu. Svo voru kommarnir með einhvern fund, og þeir töluðu mikið, en það var allt bara röfl. Byggt á sannsögulegum atburðum semsagt.

Seinni myndin var "Weekend", eftir einn af þessum gaurum sem komu slæmu orði á franskar kvikmyndir. Það var verulega slæm mynd. Plottið er nokkurnveginn svona: fólk hoppar upp í bíl og ekur út í sveit. Þar virðast 10% af vegfarendum hafa farist í umferðarslysum. Veit ekki hvað það þýðir, en mig grunar að leikstjórinn hafi hreinsað alla bílakirkjugarða í frakklandi upp fyrir gerð myndarinnar.

Það voru nákvæmlega engin stönt. Þetta er bara settið. Mynnir reyndar svolítið á Mad Max myndirnar.

Svo loksins enduðu þau úti í skógi, þar var Napóleon, einhver gæji með trommusett og einhver leiðinleg kelling sem fór með þulur. Þau kveiktu í henni. Þá hittu þau mannæturnar sem voru alltaf að röfla um hve hræðilegt það væri að vera smáborgari, á milli þess sem þeir lifðu á túristum og spiluðu á trommur.

Aha... er ekki viss um hver meiningin er, en ef valið stæði milli þess að vera smáborgari eða mannæta úti í skógi, þá myndi ég velja að vera smáborgari. Það er ekkert gott að vera úti í skógi.

Já... eftir þetta er nýjasti ópus Tony Scott ekki sem verstur.

***

Fór og kíkti á rústirnar í gær. Bleh. Ekki mikið að sjá. Horfði á fréttirnar um daginn. Veit ekki hvað menn eru að grenja ufir þessum kofum. Mér sýndust þetta vera mestu hreysi, sem ég veitti samt ekkert sérstaka athygli. Hvað var það sem var svo merkilegt sem fór þarna fram? Fyrst þetta var svo mikil gersemi, afhverju var þá bara einhver hallæris-bar þarna?

Og svo vilja þeir endurbyggja þetta? Huh? Af hverju? Afhverju má ekki skella upp stærra húsi þarna? Svona 3 hæðir. Ég mæli með að það líti svona út:

Stórt, en á sama tíma virkilega flott. Og það er vatnshalli, einar 45°, fullt af gluggum, margar hæðir...

Og tók ekki nema 10 mínútur að krota upp í MS-Paint.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Dagur 40 ár 4 (dagur 1135, færzla nr. 537):

Og í gær var ég angraður með stórfrétt um einhvern jólasvein sem hafði rölt inn í herbergi og skotið fullt af fólki.

Í Bandaríkjunum. Annan hvern mánuð gerist eitthvað svona. Sem fær mig til að hugsa: Það er verið að ljúga að mér. Það er alltaf verið að segja að það sé allt fullt af byssum í USA, og þar sé súper auðvelt að verða sér úti um byssu, og öll menningin gengur út á byssur; hinn venjulegi kani er með byssu í hvorum vasa, eins og Lord Byron.

Og svo kemur einhver með byssur, og labbar um og nær að drepa 30 manns. Hvar voru allar þessar byssur? Undir rúmi? Ekki voru þessir 30 með neina, það er nokkuð ljóst.

Nei, mig er farið að gruna að bandaríkjamenn eigi ekkert margar byssur. Þetta séu bara einhverjir sérvitringar sem eigi allar þessar byssur, og aldrei er skotið á þá. Því þeir hafa byssur. Maður sér aldrei neinn ráðast á Charlton Heston, er það? Það skaut heldur aldrei neinn á Lord Byron, og þó var hann ljóðskáld.

Það eru enn innan við 10 ár síðan ég frétti að það væru fleiri morð framin í Svíþjóð en USA. Per 100.000, sko. Þeir nota sko axir. Því þeir eru ekki framar á merinni en það.

Mér virðist sem 45% af fréttum sé lygi, 45% sé rangtúlkun á sannleikanum og 10% sé uppfyllingarefni. Pöndur og svona.

laugardagur, apríl 14, 2007

Dagur 37 ár 4 (dagur 1132, færzla nr. 536):

Það fór fram smá drykkja í gær. Líður enn hálf-ferlega eftir það. Það mun batna, fæ mér kók á eftir, kannski hamborgara eða eitthvað.

***

Nissan Patrol eru örugglega mest hægfara ökutæki sem völ er á. Ég er viss um að kranabíll tæki Patról í spyrnu. Ég meina, man einhver eftir að hafa verið stunginn af á einhverjum á Patról? Svo er þessum farartækjum aldrei ekið öðruvísi en með hægri fótinn fast við gólfið, með tilheyrandi reyk og hávaða.

Ég var á eftir einum í gær, helvítið hafði ekki í við lengri gerðina af Ford Transit með kæliboxi, og ég var ekkert sérstaklega að þenja bílinn. Fór aldrei yfir 3000 snúninga. Djöfulsins druslur. Og þetta kaupa menn viljandi, fyrir pening? Svei!

Ég veit alveg hvernig þessir bílar virka, ég sé það núna:

Nissan Patról er settur í gang, í gír, og svo er hann staðinn flatur. Þá fer bíllinn svo hægt, hægar en allt sem hægt er, hægar jafnvel en kjurt. Svo hægt að hann ferðast aftur í tímann. Sem er náttúrlega alveg bannað, og þá taka tíma-púkarnir við sér, svo bíllinn endi ekki á Napóleonstímanum, og þeir raða sér umhverfis hann, og bera hann á milli sín á leiðarenda, á meðan einn þeirra sér um að rúlla kílómetramælinum. Þess vegna virðis bíllinn hreyfast um í rúmi. En þetta eru mjög þung farartæki, svo púkarnir okkar komast ekki mjög hratt, sem er ástæðan fyrir þessu slóri. Þeta er líka ástæðan fyrir lágri bilanatíðni í þessu.

Svo eru hinar rollurnar, sem fá sér Landcrusher jeppa, sem eru lítillega öflugri, og eru því næstum jafn snöggir og skriðjöklar. Það er vegna þess að þeir eru jafn þungir og slíkir.

Svo renna menn um á þessum traktorum sínum, fyrir hvar sem þeir fara.

Ég veit ekki hvað þetta lið er að spá. Í alvöru. Að kaupa sér ekki almennilegan bíl, ef þeir hafa efni á því. En nei! Þeir vilja jeppa með snerpu á við plöturek með akstureiginleika steypubíls. Eða Pajero, sem er eins og Toyota Hi Ace í akstri.

Það eru nokkrir jeppar þarna úti sem eru alveg í lagi - Range Rover til dæmis. Svo er Suzuki Jimni, sem er þeirrar náttúru að komast um öll fjöll að mestu óbreyttur, eða bara Porsche Cayenne, sem er sportbíll dulbúinn sem jeppi.

***

Talandi um bíla; ég las það einhversstaðar að það væru uppi hugmyndir um að vera með ókeypis bílastæði fyrir umhverfisvæna bíla.

Hmm... hvað sem það þýðir. Til dæmis, þegar öll kurl eru komin til grafar, þá er Ford F-350 umhverfisvænni en Toyota Prius. Jamm. Toyotan eyðir aðeins minna - skuggalega miklu samt miðað við alla tæknina sem er í gangi - en: það fer gífurleg orka í að smíða hana, þessi léttu plastefni, þessar tvær vélar með öllum þessum speis-efnum og svo náttúrlega rafgeymarnir. Við framleiðslu á einum Prius losnar meira koldíoxíð en við framleiðzlu á Ford F-350 og akstur á þeim bíl í einhverja 2-300.000 kílómetra. Og það versnar, því Priusinn endist víst ekki nema 150.000 kílómetra.

Fæ ég þá frítt stæði fyrir F-350 bílinn sem ég fæ mér þegar orkukreppan skellur á?

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Dagur 33 ár 4 (dagur 1128, færzla nr. 535):

Fyrst það var nú frí fór ég út á Reykjanes og skoðaði Wilson Muga. Dallurinn er lengst uppi í landi, við stofugluggann hjá liðinu þarna í Hvalsnesi. Mjög tilkomumikið að sjá, og mikil tilbreyting frá hinu venjulega útsýni þar: sjó.

En hey, þetta lið er mjög hrifið af sjó. Helst myndi það vilja horfa á ekkert annað, og reyndar er þetta sléttasti parturinn af Reykjanesinu, þarna er nákvæmlega ekkert svo langt sem augað eygir.

Mig grunar að þessu fólki sem þarna býr séu eigin hús mikill þyrnir í augum, þar sem þau standa uppúr auðninni, en óheppileg nauðsyn, því án þeirra gætu þau ekki notið sléttlendisins. Eða hvað það eiginlega er sem fær það til að heimta þennan dall í burtu.

Hvernig þeim tíkst að koma bátnum svona rækilega á land veit ég ekki. Það hlýtur að hafa verið háflæði þá. Þegar ég kom að þessu voru 10 metrar af stefninu á lofti, svo sá undir. Að aftan er bara 1/3 af skrúfunni á kafi. Merkilegt alveg.

Ef þetta skip væri látið í friði myndi það líklega brotna í sundur á innan við 10 árum, en samt yrði nóg eftir til að laða að sunnudagsrúntara. Þetta gæti orðið mikil lyftistöng fyrir hamborgarasjoppuna í Sandgerði. Þeir á Hvalsnesi gætu opnað kaffihús til að kapitalisera á þessu. Því með mynnismerki sem breytist stöðugt, þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá, alltaf sama fólkið úr Keflavík, hafnarfirði og Rkv að mæta að skoða hvað hefur breyst.

En... þeir munu draga bátinn út, þar sem hann mun sökkva.

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Dagur 27 ár 4 (dagur 1122, færzla nr. 534):

Himnarnir hafa ekki hrunið ennþá. Tékkum aftur á morgun.

***

Skildist það á fréttum um daginn að þó búið sé að samþykkja það að ekki megi stækka álverið í straumsvík sé samt svigrúm fyrir þá til að stækka álverið - eða réttara sagt, gera það afkastameira án þess að gera það umfangsmeira.

Sko, álverið átti nefnilega að verða talsvert plássfrekt. Átti að ná yfir veginn, og langt inn á geymslusvæði. En í staðinn geta þeir bara pakkað meira álframleiðzludóti á það svæði sem til er. Snilld. Það verður náttúrlega ekki alveg eins afkastamikið og það hefði orðið, en samt meira. Og mun spúa meiri eiturefnum í loftið.

Þetta er nefnilega mjög einfalt: Báxít fer inn, Flúor fer inn: ál, flúor og brennisteinn og eitthvað meira fer út. Eða það skilst mér.

Það skal samt enginn gera sér vonir um að minna álver með minni útblæstri sé eitthvað betri fyrir Hafnarfjörð. Jú, það er kannski minni mengun, en það er á sama tímalítillega minni pening að hafa út úr því, sem mun hefta vöxt á svæðinu. Hafnarfjörður er ekkert að fara á hausinn alveg strax, en þeir misstu af smá meiri pening. Þetta er eins og munurinn á að bjóðast vinna í ruslinu fyrir 300.000 kall á mánuði (með yfirvinnu) eða þægilegt 9-5 skriftsofustarf fyrir 180 á mánuði. Maður kemur ekki heim illa lyktandi, en á móti þá hefur maður ekki efni á glæsilegri 4 hæða höll með sundlaug á toppnum og krana fyrir bjór við hliðina á vatnskrananum í eldhúsinu, 17 salernum og hvaðeina, svo ég ýki lítillega.

***

Það á að búa til veag af gufunesinu, þar sem öskuhaugarnir voru, og upp í sundahöfn. Það á að heita sundabraut. Og Sundahafnir eiga að fjármagna þetta, því ríkið vill ekki fjármagna þetta.

Sem vekur upp tvær spurningar:

1: Á ekki Ríkið einmitt að fjármagna vegaframkvæmdir? Ég meina, það er það sem veggjaldið fer í. Við borgum það öll hvort sem okkur líkar betur eða verr, fleyri milljarða á ári, og það óbeint hvort sem við eigum bíl eða ekki.

2: Eru ekki sundahafnir ríkisfyrirtæki? Hér er eitthvað svindl í gangi.

***

Þetta er Cessna Skyhawk. Svona rella kemst svona 1200 kílómetra á tankinum, sem er 200 lítrar að stærð (svons circa), sem þýðir að hún eyðir líklega um 16 á hundraðið. Hún hefur 160 hestafla mótor og er vanalega flogið á 180-200 km/h.

Veit ekki hvort það er gott eða slæmt. Hvað var aftur Dornier að eyða? Lítra á kílómetrann? En það er náttúrlega miklu stærri og þyngri vél, með 2 hreyfla. Svo þarf þetta dót að tolla á lofti einhvernveginn, og það er ekki beint best í heimi að þurfa að knýjast áfram í gegnum loft. Betra væri ef það væri kapall þarna sem þetta gæti fikrað sig eftir - uppá eyðsluna. Það bara stendur ekki til boða.

Jæja.

sunnudagur, apríl 01, 2007

Dagur 24 ár 4 (dagur 1119, færzla nr. 533):

Kosningum um stækkun álversins lauk með 88 atkvæða mun. 88 af 16.000. Frábært. Það er jafnt. 76% kjörsókn... heh. Hvað svo? Ekki fer álverið. Það kostar. Nema það virkilega svari kostnaði að rífa þetta og byggja annað annarsstaðar.

Nú mæli ég með að fólk í Þorlákshöfn og nágrenni byrji að rabba aðeins við alcan. Bjóða þeim pláss fyrir svona mlljón tonna álver. Það er góður staður, Þorlákshöfn. Það er náttúrlega höfn, nánast enginn gróður sökum saltroks, og fullt af söndum þar sem býr enginn svo langt sem augað eygir.

Og: það er stutt í rafmagn.

Reynir var að tjá sig um rafmagn áðan - hann á nú að þekkja það, verandi rafvirki, og hafandi unnið í álveri og orkuveri - og samkvæmt honum menga svona hverarafstöðvar bara ekkert lítið. Þær pumpa sko upp brennisteinsoxíði. Sem myndar súrt regn.

Hann hefur miklar áhyggjur af komandi ísöld.

Já, við vitum að það hafa verið ísaldir - þ.e. þau okkar sem hafa fylgst með, horft á fræðsluþættina á rúv og Discovery - eða Ísöld - en hvað eigum við að gera við því?

Ja... við gætum tekið okkur til og rifið hvarfakútana undan bílunum okkar. Þá menga þeir minna - nema við ökum þeim mun meira. (Þeir virka ekki fyrr en bíllinn er orðinn heitur, og það bara gerist ekkert í Reykjavík - hvað þá í Eyjum). Það er svona prómill af útblæstrinum. Við gætum sökkt öllum beljum landsins í Kárhnjúkalón. Þær menga, þessar beljur. Reyndar allir grasbítar. Svo sökkvum rollunum líka, og fólki á makróbíótísku fæði, til öryggis. (Eða við getum borðað þetta allt, haldið svona stórt karnival, áður en við förum öll að borða fiska sem við höfum veitt úr næstu á eða sjónum).

Við getum hætt að anda. Allir vita að andardráttur losar fullt af kolmónoxíði, sem er jafn skaðlegt umhverfinu og það er gott fyrir það. Ef maður gerir það hættir maður náttúrlega fljótt að hafa áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda.

Allt saman mjög uppbyggilegar hugmyndir.

Já. Ísöld. Þá getum við öll búið í snjóhúsum eins og einhverjir eskimóar.