laugardagur, maí 30, 2009

Dagur 86 ár 5 (dagur 1911, færzla nr. 802):



1911

Hmm... Nú eru allir pirraðir vegna þess að Ríkið hefur, fyrirsjáanlega, ákveðið að auka á vandræðin sem Ríkið kom allri þjóðinni í.

Hvað er næst? Skattur á matvæli? Mjög trúlega. Það er ekki eins og þeir fari að skera niður tilgangslausa ríkisstarfsemi. Til dæmis utanríkisþjónusuna.

Og hvað fæst í alvöru út úr þessu? Ja... örari gjaldþrot. Hraðari landflótti. Minni líkur á að nokkur komi til baka.

Ég sé það alltaf betur og betur að það var ekkert gott að það dró úr mótmælum á Austurvelli. Þau þurftu að magnast aðeins. Það varð að kveikja í einhverjum mikilvægum byggingum, myrða nokkra embættismenn... þið vitið, valda alvöru tjóni á kerfinu.

Kannski verður það gert eftir allt saman.

Ja, það verður unnið tjón, en ekki á kerfinu. Af kerfinu.

mánudagur, maí 25, 2009

Dagur 81 ár 5 (dagur 1906, færzla nr. 801):

Af hverju fer enginn og sparkar í þessa gaura? Bara til þess að sýna þeim fram á hve miklir vitleysingar þeir eru.

Það sem þeir eru að segja er: "Sjáið, við eigum atómsprengju!"

Við vissum það. Só? Ætlast þeir til að einhver segi eitthvað gáfulegt núna? Eitthvað militant, Kannski? Það verður ekki gert.

Nei, það er ekki til árásargirni í heiminum - nema þú sért arabi. Þeir eru öflugir. Akkúrat núna sé ég ekki betur en að þeir séu að berja á pakistönum, og virðist ganga vel.

Ekki svosem að það skifti máli. Allir vita að Kóreumenn hafa ekki getu til að skjóta þessum sprengjum sínum nema hálfa leið yfir eigin landhelgi. Geislavirknin gæti pirrað japani, en þeir eru örugglega komnir með smá þol. Hver veit, kannski gerir smá geislavirkni japönum bara gott. Þeir gætu stækkað eitthvað við það. Eins og allir vita þá getur hlaupið ofvöxtur í lífverur sem verða geislavirkar.

Oftast heitir það nú krabbamein - en það er aukaatriði.

Hugsum okkur það aðeins: N-Kóreumenn ná að gera alla Japani geislavirka, sem veldur því að japanir vaxa upp úr öllu valdi, svo mjög að þeir geta ekki lengur föndrað við að búa til steríógræjur og vélmenni, sem gerir þá auðvitað mjög pirraða, svo þeir vaða yfir hafið og stompa Pyongyang.

Æðislegt. Vandamál leyst.

þriðjudagur, maí 19, 2009

Dagur 75 ár 5 (dagur 1900, færzla nr. 800):

Nú vilja kommarnir sem svo margir kusu á þing setja á sérstakan sykurskatt. Til þess að ýta undir verðbólgu. Ja, það er það sem gerist. Þeir segja að þetta eigi að minnka tannskemmdir. Ég fæ ekki séð hvernig þeir fá það út. Ef fólk getur ekki burstað í sér tennurnar án sérstaks sykurskatts, mun það ekki bursta í sér tennurnar með sérstökum sykurskatti.

Annað sem fær mig til að hugsa: gefum okkur nú að þessir asnar trúi því í alvöru að þetta sé sykuráti og sýruinntöku að kenna, þá er skattlagning á gosdrykki og hluti sem bragðbæta te bara byrjunin.

Já, næst: ávextir.

Pælið aðeins í því; ávextir, svosem epli, appelsínur, bananar og slíkt innihalda alveg helling af deadly tannskemmandi sykri og sýrum. Augljóslega þarf því að setja álögur á slíkar vörur til að fólk fari ekki að fara sér að voða með því að japla á þeim.

Svo eru tómatar og gúrkur. Þetta tvennt er löðrandi í tannskemmandi sýrum.

Nú, ef á að fara alla leið í vitleysunni, þá er fitan næst. Allt nema ómega 3 er deadly stuff sem drepur alla sem þess neyta langt fyrir 150 ára aldur. Sem þýðir: engar mjólkurafurðir, ekkert kjöt, enginn þorramatur. Bara soðið kál. Sem má ekki salta, því salt er banvænt.

Alveg eins og á Kúbu... fyrir utan sykurinn. Á Kúbu er sykur niðurgreiddur - fólk fær að kaupa einhver ósköp af sykri á hálfvirði þar, og það er það eina sem er alltaf til.

Kannski er það draumur nýju vinstristjórnarinnar? Ísland: Sykurlaus Kúba?

Bragðdauft líf, það.

Við deyjum ekki úr hjartaáföllum tilkomnum af þorramat. Nei. Við drukknum á leið úr landi á fleka.

laugardagur, maí 16, 2009

Dagur 72 ár 5 (dagur 1897, færzla nr. 799):

Þá er komið að því: kvikmynd kvöldsins; en fyrst: treilerar!



Machine girl



Krull (Lord of the Rings IN SPACE!)



Moon

Kvikmynd kvöldsins:



Star Wreck, in the Pirkinning.

Finnsk B-mynd, gerð inni í bílskúr einhversstaðar í Finnlandi. Og er ein af 10 bestu geimmyndum sem ég hef séð.
Snilld, snilld, snilld.

Dánlódið henni frekar af heimasíðu framleiðanda. Hún er ókeypis af lagalegum ástæðum.

fimmtudagur, maí 14, 2009

miðvikudagur, maí 13, 2009

Dagur 69 ár 5 (dagur 1894, færzla nr. 797):

Fór í bíó. Star Trek. Auðvitað, það kom ekkert annað til greina.

Þessi mynd fjallar um risastóra aloe-vera plöntu sem ógnar friði í stjörnuþokunni... ja, geimskip sem lítur út eins og aloe vera planta... svo koma þessir gaurar í náttfötum, akandi um á geimskipi sem lítur út eins og bastarðs-afkvæmi Kitchen aid hrærivélar og Æpods.

Og svo er geimskipið sem lítur út eins og einskonar þeytari...

Nóg um geimskip sem líta út eins og plöntur og eldhúsáhöld. Þetta var alveg fín ræma. Get mælt með henni ef þið hafið ekki séð hana.

mánudagur, maí 11, 2009

Dagur 67 ár 5 (dagur 1892, færzla nr. 796):

Nú fer vondulagakeppnin að byrja aftur. Ég heyri Íslenska lagið suða í útvarpinu á hverjum morgni - vegna þess að ég get valið um að hafa stillt á bylgjuna eða FM, og ég fæ klígju af FM.

Það er vont.

Öðru hvoru heyrist lagið sem komst ekki áfram í Danmörku. Það höfðar ekki til mín heldur.

Mér finnst einhvernvegin eins og menn séu að vonast til að fá stig fyrir klaufalegasta lagið. Eða það bjánalegasta. Sumir gera þetta viljandi finnst mér einhvernvegin. Ég held að það sé málið. Sylvía Nótt var alveg rétta persónan til að senda yfir.

Fólk hérna tekur þetta stöff of alvarlega.



Þetta er alveg boðlegt í Júróvisjón.

laugardagur, maí 09, 2009

Dagur 65 ár 5 (dagur 1890, færzla nr. 795):

Til að hafa ofan af fyrir mér kíkti ég á smáauglýsingarnar á eyjar.net. Þar sé ég ekki betur en mikill straumum reyklausra, ábyrgra einstaklinga, annálaðra af reglusemi og góðri umgengni muni streyma til eyjanna á næstu þjóðhátíð.

En óttumst eigi! Það verður nóg af hirðulausum skúrkum með drykkjuvandamál til að halda uppi fjörinu. Hvar værum við án þeirra?

Og hvernig er það, fer ekki að finnast meiriháttar sprotafyrirtæki í Eyjum líka? Mér finnst við séum að verða útundan í þeim geira. Eða kannski er lókal garðyrkjumaðurinn bara svona helvíti lúmskur. Hver veit.

föstudagur, maí 08, 2009

Dagur 64 ár 5 (dagur 1889, færzla nr. 794):

Hefir eitthvert ykkar spáð í því, að þegar kristinn R. Einarsson segir "samt er kaffið alltaf best hér heima," þá er hann staðsettur í Madrid, þar sem hann býr. Og Madrid er á Spáni.

Hugsum um það um stund.

fimmtudagur, maí 07, 2009

Dagur 63 ár 5 (dagur 1888, færzla nr. 793):

Fann þetta á netinu áðan. Ég vissi ekki að þetta væri hægt. Gefur mér hugmyndir. Það er til dæmis ekkert mál að ljúga því að tollayfirvöldum að þetta sé antík. Þarf bara að láta skifta um stýri. Get fengið það hjá JC Whitney, held ég. Hmm... það batterí dílar hinsvegar með parta í Ford Mustang... en hey, það er lúkkið sem gildir.

***

Það er bókstaflega ótæmandi magn af teiknimyndum á netinu. Það vita allir sem nenna að hafa sig eftir þeim. Þær japönsku hafa það helst fram yfir hinar að hafa áhugaverðari söguþráð. Sá böggull fylgir þó skammrifi að allar persónurnar líta alveg eins út.

Oftast nær líta þær út eins og hárlaus köttur með Tina Turner hárkollu, eins og ég hef sýnt frammá myndrænt hér til hliðar. Og það er á góðum degi. Ég veit ekki af hverju þetta stafar.

Svo er útlitið á fígúrunum ekki í neinum takti við efnistökin - það er sama hve krípí og/eða ofbeldisfullt plottið er, alltaf líta allir út eins og karakterar úr pókemon.

Önnur aukaverkun af því að allir eru eins, er að þá er erfitt að þekkja alla karaketrana í sundur. Sem er líklega ástæða þess að sumir eru með grænt hár. Til þess að þekkjast frá þeim sem eru með blátt hár. Sem aftur þekkjast þannig frá þeim sem eru með bleikt hár.

Hver vill ekki vera með bleikt hár? Og augun maður! Græn augu eru algeng, en það er líka alveg til fólk með græn augu. En svo eru þessir með rauð augu, eða gul, eins og einhverjir lemúrar. Og ekkert nauðsynlega með augasteina heldur. Þá er maður kominn með eitthvert dímonískt skelmi sem lítur út eins og disney versionin af skoffíni.

Sem hljómar reyndar miklu betra en það er í raun.



Þetta er í stórum dráttum vandinn. Svo maður fer að hugsa: var þessi ekki dauður? Nei, það var tvífari hans. Eða þrífari...

Disney reddar þessu á einfaldan hátt: gaurinn með gogginn er öðruvísi en sá sem er með eyru eins og skyggnir. Og svo er gaurinn sem er í raun önd, og ég veit ekki hvaða kvikyndi sumir þarna eiga eiginlega að vera. Eitthvað sem einhvern hefur dreymt á einhverju sýrutrippi kannski?

Og þetta versnar bara. Það er dauðanum erfiðara að þekkja sundur raddirnar, sérstaklega milli kvenpersónanna, því þær hljóma allar eins og Snar & Snöggur. Ja, flestar. Svo er kynjaskiftingin oft algjör - annað hvort bara karlpersónur eða kvenpersónur. Horror. Það sem gerist þá, er að þú hefur nokkrar kvenpersónur sem líta alveg eins út og hljóma allar eins, nema hvað ein er með grænt hár, ein með blátt hár og ein með gult hár, augu á stærð við súpuskálar og ekkert nef, og þær finna einhverja ástæðu til að limlesta hvor aðra á blóðugan hátt.

Og þá er þetta allt í einu orðið þess virði.

***

Veit einhver hérna hvað 95% öryggisbil er? Ég hef nokkuð góða hugmynd um það. Held ég. Vona ég.

Fyrir þá sem ekki vita, þá er það svo að í hvert skifti sem maður tekur handahófsúrtak eftir vissri aðferð eru 95% líkur á að meðalatal þýðisins sé innan þess.

Sem segir okkur það að 5% af úrtökunum eru einhversstaðar úti á engi.

Það er svosem hægt að stilla þetta af, en mér skilst að 95% sé mest notað. 99% er of þröngt skilyrði, 90% er of vítt. Eða svo segja þeir.

***



Þú veist að þú drukkið of mikið þegar...

mánudagur, maí 04, 2009

Dagur 60 ár 5 (dagur 1885, færzla nr. 792):

Þá er komið að því aftur: kvikmynd kvöldsins! En fyrst, treilarear:



Gigantor.



Demons 2.



Dobermann. (Þeir slepptu öllum bestu atriðunum... heh.)

Þá er það mynd kvöldsins:



The Man who knew too much - Hitchcock, 1934.

Svona til tilbreytingar er mynd kvöldsins ekki alveg ferlega slæm, heldur nokkuð góð - þó hún sé augljóslega þónokkuð komin til ára sinna.

Þessi mynd er styttri en endurgerðin frá 1954. Og það er all verulega langur skotbardagi í endinum á henni, sem ég satt að segja bjóst ekki alveg við þegar ég byrjaði að horfa á þetta. Hann stendur yfir í vel yfir korter af ekki lengri mynd en þetta er. Reyndar er meira um áflog og aksjón í þessari útgáfu en þeirri seinni. Þetta vindur allt up á sig, einhvernvegin.

sunnudagur, maí 03, 2009

Dagur 59 ár 5 (dagur 1884, færzla nr. 791):

Datt í hug að skella inn nokkrum myndum sem ég hef verið að sanka að mér. Svona úr því ég var að sanka þeim að mér. Þetta er Cassini, held ég. Það er tungl sem sveimar umhverfis einhvern af þessum hnöttum þarna úti. Er ekki alveg nógu vel að mér um allt það til að geta sagt án þess að tékka á því. En þetta er flott mynd.
Þetta er ástæðan fyrir því að alltaf er verið að senda farartæki út í geiminn: til að taka svona áhugaverðar myndir af himintunglum.



Þetta fyrirbæri aftur heitir því hljómþýða nafni M42 Christensen. Ég er fyrir löngu búinn að gleyma hvað þetta er, en þar sem þið hafið heitið á þessu ætti að vera létt verk að fletta því upp. (Og þar með eruði föst í wikipediu í klukkutíma minnst. Það er a.m.k það sem gerist alltaf þegar ég kíki á það fyrirbæri)

Augljóslega eru þetta stjörnur. Hellingur af þeim. Svífandi um í geimnum. Það verður að hafa svoleiðis.






Já. Í sólkerfi langt langt í burtu...