laugardagur, júní 16, 2007

Dagur 101 ár 4 (dagur 1196, færzla nr. 557):

Af illri nausyn þarf ég að þvælast um með síma. Ekki beint þægilegt, það. Sérstaklega ekki þegar flestar hringingar eru frá liði sem er að athuga hvort ég vil skifta um símafyrirtæki. Og það hringir þegar ég er að keyra.

Svo eru takkar á þessu, milljónir af þeim alveg. Og það ýtist alveg á þessa takka af sjálfsdáðum þegar ég er á röltinu. Einusinni var ég að labba ehim með poka fullan af matvöru, hann var nokkuð stór og slengtist utaní vasann þar sem ég hafði símann.

Þann dag hringdist örugglega í fullt af fólki, sumt í útlöndum.

Aðrir sem ég þekki eiga það til að skilja símana sína eftir hér og þar; undir borði, oní fiskabúri, bakvið sófa... hér og þar. Svo hringir þetta með miklu ljósashowi, þrumum og eldingum, og viðkomandi er þá uppi á esju eða á Hvanneyri og getur ekki svarað. Hver er þá tilgangurinn með þessum síma?

Þráðlausi heimilissíminn er ekkert mikið betri. Fyrst eftir að hann kom, þá varð alltaf að finna Þórgunni ef maður þurfti að hringja einhvert. Hún átti alveg til að æða með símann eitthvað í burtu. Út jafnvel.

Svo fékk hún sinn eigin síma. Það varð súrrealískt mjög fljótt:

Þógga hringir í vinkonu sína og tilkynnir henni: "Halló! Ég er að tala við þig í síma! Með inneign!"

Svo talaði hún um ekkert nema síma og inneignir í 2 ár. Ég meina, manneskjan hringdi í vinkonur sínar til að tilkynna þeim að hún ætti enga inneign! Ef ég hefði haft geð í mér til að hlusta hefði ég getað lært allt um kosti og galla Nokia 33500 og Símens 4232 með hliðsjón af Ericson 666 eða hvað þetta dót allt saman heitir.

Svo endast þessi tól afar stutt og illa. Minn sími, sem ég hef haft í... 2-3 ár, er fullur af ryki, sem þarf að blása burt ef á að vera hægt að kveikja á honum aftur eftir að hafa slökkt. Hverslags gæði eru það? Þetta er afar lítið notaður gripur. Hann á ekkert með að vera með stæla við mig.

Talan 9 virkaði ekki í nokkra mánuði. Sem var pirrandi. Það er í lagi núna. Rykið hlýtur að hafa færst til.

Svo eru engin tengzl milli verðs og endingar. Hvað er málið með það?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli