föstudagur, júní 22, 2007

Dagur 107 ár 4 (dagur 1202, færzla nr. 558):

Í dag er hægt að reyna að nærast eingöngu á súkkulaðiköku! En ég held ég borði samt eitthvað annað með því. Því minni súkkulaðiköku sem ég borða, því minna verður mér illt. Kíki á hamborgara á morgun. Það hljómar miklu betur.

Kannski get ég gefið hundinum hana? Nei... hvorugt dýrið lítur við bakkelsi. Kötturinn er alveg sérlega mótfallinn sætindum.

Miðbærinn lyktar eins og blautur köttur. Það er vegna þess að vindur stendur af lifrar-dótinu þarna - þessu sem er alltaf verið að reyna að kveikja í.

***

Ég var að rífa innréttingar áðan. Hluti af því er einhver panell á loftinu. Ég komst þá að því að sá sem setti upp loftið notaði tækifærið og losaði sig við fullt af allskyns óskildu drasli í leiðinni - faldi það í loftinu.

Það var grjótmylsna, umbúðir utanum saumavélaolíu, kökuform, og einhver pottur eða panna sem var svo ryðguð að hún brotnaði þegar hún skall í gólfið og varð að dufti sem hringsólaði um andrúmsloftið í smástund. Afar skemmtilegt auðvitað.

Nú þarf að sópa upp öllu þessu jukki. Geri það næst.

Afgangurinn af þessu var bara trédót sem var lítið mál að rífa af og henda svo niður stigann.

Ég held ekki að ég klári þetta um helgina.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli