þriðjudagur, febrúar 09, 2010

Dagur 344 ár 5 (dagur 2166, færzla nr. 872):

Ég hef tekið eftir því undanfarið, að fólk tekur ekki lengur lyf við neinu. Til dæmis eru ekki lyf við malaríu. Nei. Í staðinn eru lyf "gegn" malaríu.

Á svipaðan hátt er fólk ekki lengur beitt ofbeldi. Nei. Ofbeldi er "gegn því", einhvernvegin.

Sko, ofbeldi er ekki efnislegt fyrirbæri, og hefur þess vegna ekki framhlið, afturhlið, eða... hlið. Það getur því ekki verið staðsett á móti (eða gegn) neinu. Hvorki fólki né dýrum. Lyf eru efnisleg fyrirbæri, en það er skilgreiningaratriði hvaða partur af þeim er fram og hvað aftur, svo erfitt er að segja hvort þau geta verið "gegn" nokkrum hlut. Og satt að segja veit ég ekki alveg hvað snýr fram og hvað aftur á malaríu.



Malaría. Finnið út úr þessu.

Annar merkilegur frasi er þetta "hvað varðar" er allir eru alltaf að segja. Sem er líka tóm vitleysa.

Ég bara bíð eftir því að fólk fari að spyrja: "er eitthvað í ísskápnum, hvað varðar matvæli?" eða "Hvað eigum við að gera hvað varðar mjólk?"

Í stað þess að spyrja: "er eitthvað til í ísskápnum," og "þurfum við að kaupa mjólk?"

Þetta er ekkert betra en þegar peyjarnir sögðust eiga "úrval í ljósaperum."

Það sem hér hefur augljóslega skeð, er að fólk sem ekki getur formað heila hugsun hefur fengið að vaða uppi. Fólk sem ekki getur myndað setningar sem einu sinni hljóma rétt, hvað þá meira, eða eru beinlínis ruglingslegar, svo maður veltir fyrir sér hvað er eiginlega verið að meina.

Svo, endilega, áður en þið opnið munninn, takið ykkur eina auka sekúndu til þess að hugsa um hvort þið eruð nú ekki örugglega að orða það sem þið ætlið að segja að minnsta kosti nokkurn vegin rétt.

Bara svo þið hljómið ekki eins og þið séuð að lesa upp úr mogganum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli