Dagur 130 ár 6 (dagur 2322, færzla nr. 932):
Þetta er 1978 módel Still rafbíll.
Sjáið þessar rennilegu línur.
Svona bíll vegur í kringum 1800 kíló, og kemst frá 0- ... eitthvað, á svona 5 sekúndum. Gera má ráð fyrir að svona bíll nái kannski 60 kmh sé honum ekið fram af vestari brautarendanum.
Bensíneyðzla á hundraðið er... uhm... þetta er jú rafmagnsbíll.
Það eru 2 gírar: áfram og afturábak.
Staðalbúnaður í svona bíl er sæti. Bæði hægra og vinstra megin. Loftkæling er aukabúnaður, svo og 6 diska spilari, spinnerar, HUD mælaborð og spoilerkitt.
Sjáum nútímalegan framendann:
Fjöðrunin í þessu væri sjálfstæð á öllum hjólum ef það væri fjöðrun. En í stað hennar er nokkurnvegin ekkert. Sem veldur því að þessi bíll hefur verri aksturseiginleika en Mitsubishi Pajero.
Það er frekar ömurlegt að aka út á möl á þessu. Maður finnur fyrir hverri ójöfnu, svipað og í Ferrari.
Bíllinn er að auki búinn vöðvastýri, svo hver sem honum ekur verður afar stæltur - amk í sumum vöðvum - eftir tveggja mánaða akstur.
Sökum þess að ekkert þak er á ökutækinu, engar hurðir eða framrúða, þá er aukabúnaður eins og rafdrifnar rúður, sóllúga og upphituð afturrúða hálf tilgangslaus.
Fyrir utan slík smáatriði er bíllinn afar vel búinn: á þessari mynd má sjá báða mælana, annar sem mælir hve lengi bíllinn hefur verið í gangi, hinn hve mikið rafmagn er enn á honum. Einnig má sjá hvar fjarstýringin að bílskúrnum hefur verið haganlega felld inn í mælaborðið.
Hann væri kannski töff á '33 dekkjum, en það er hætt við að slík breyting gæti endanlega gengið frá aksturseiginleikunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli