Dagur 87 ár 7 (dagur 2644, færzla nr. 1019):
Á vísi.is er rafrænt tarot. Þar stendur: "Hugsaðu þér, eða skrifaðu spurningu og dragðu þér spádómsspil."
Allt í lagi... athugum hvort þetta getur þá ekki svarað ýmsum brennandi spurningum:
"Hvort er betra, kók eða pepsí?"
Tarot svarar:
"Stolt þitt eða egó hefur jafnvel verið sært nýverið. Svipað og turninn á myndinni er líðan þín ekki í jafnvægi. Atburðir sem trufla hversdagsleika þinn eru eflaust í formi breytinga sem eru einungis til hins betra.
Stundum er nauðsynlegt að ganga í gegnum erfiða hjalla til að komast að sólinni og eru þetta án efa óhjákvæmilegar umbreytingar á högum þínum sem tengjast heimili þínu, ástinni eða starfi.
Túlkun þín á þessari aðstoð gæti verið óþægileg á einhvern hátt en hún birtist í formi atburða sem þú þekkir án efa ekki. Hér er á ferðinni tækifæri sem þú færð einungis með þessu móti."
Mmm... já. Appelsín, semsagt?
Jæja, prófum aftur:
"Er í lagi að drekka mjólk sem er komin 4 daga yfir síðasta söludag, og af hverju?"
Og Tarot svarar:
"Kona þessi er vel gefin, sjálfstæð og býr yfir miklum styrk sem flytur hana hæstu hæðir ef því er að skipta. Hún gæti verið ekkja, kona einstæð sem gengið hefur í gegnum skilnað eða sú sem kýs að vera sjálfs síns herra.
Þrátt fyrir styrk hennar og einveru sem hún kann vissulega að meta á hún það til að vera mjög einmana. Metnaður hefur einkennt hana frá blautu barnsbeini og hún á það til að taka starf sitt fram fyrir barnsburð eða giftingu og því haldið í eigið sjálfstæði með þessum hætti."
Mjólk er búin til úr... konum... eða öfugt? Sem þýðir hvað?
Reynum eitthvað einfaldara:
"Er rétt að gefa kisu mjólk?"
"Áhyggjur tengdar fjárhag þínum kunna að vera efst á baugi hjá þér og jafnvel atvinnuleysi að angra þig. En fátækt þarf ekki að tengjast peningum heldur oft á tíðum andlegri líðan.
Þú þarfnast eflaust ástar, umhyggju og ekki síður athygli um þessar mundir en ættir reyndar að leita betur innra með þér. Með því að gera það finnur þú ný tækifæri sem tengjast framtíð þinni og öðlast þannig skilning á tilgangi lífsins.
Þú getur búið þér unaðsreit ef þú trúir á hann. Þegar þú finnur fyrir löngun að bragða á allsnægtum heimsins og þiggja þær með kærleik þá veitist þér einfaldlega allt en það jafngildir alls ekki því að svipta aðra einhverju.
Hjálpin er nær en þig grunar og vandamálin leysast skjótt með jákvæðu viðhorfi og óbilandi bjartsýni."
Einfalt já eða nei svar hefði alveg dugað, sko...
Jæja, ef tarotið ætlar að vera með einhverja stæla:
"Hvernig skal bera sig að ef maður er á rölti úti í feni og ninja sker af manni fótinn og límir á annan sem er eins, nema klónaður af þeim fyrri?"
Sjáum hvernig Tarotið glímir við þetta:
"Hér birtist björt framtíð þín þar sem þú skilur eftir erfiðleika og tekst á við nýja og betri tíma.
Endir verður á leiðindum, áhyggjum og vanlíðan. Hafðu hugfast að öll þín vandamál verða ekki leyst á einum degi heldur munu aðstæður lagast með tímanum. Þegar þú veist hver þú ert í raun og veru, eflir þú hæfileika þinn til að láta alla drauma rætast vegna þess að möguleikar þínir eru óendanlegir.
Oft á tíðum er um ferðalag eða flutningar að ræða þegar sverðin sex koma fram."
Það var og.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli