Dagur 217 ár 9 (dagur 3502, færzla nr. 1235)
Þá er að koma vetur. Þá er hæpið að það verði fleir bílasýningar, svo við skulum fara yfir það sem ég skoðaði á árinu:
Fyrst var Bifreiðar & Landbúnaðarvélar.
Landrover Discovery var mjög fínn bíll í alla staði - hafði heldur fleiri takka kannski en ég hafði eitthvað við að vera. Var með sjálfskiftingu sem mér sýndist ættuð frá BMW. Nóg útsýni - ólíkt venjulegum nýjum bílum.
Það var mjög kósý bíll, minnti mikið á Range Rover '92 módel. Nema öflugri.
Díesel vélin var alveg eins og bensínvélin í þeim bíl. Sem gerir hana að bestu díselvélinni á markaðnum. Leið eins og þetta væri mjög þungur og mikill bíll. Samt alveg snarpur, svona miðað við.
BMW X 1 var... ja, það var voða fín innrétting í þeim bíl. Hann var hastur þegar hann fór hægt, og linur þegar hann fór hratt, sem gerði allan akstur ógnvekjandi. Diesel vélin hljómaði eins og hún væri úr Farmall Cup. Gaf fullt af power, það var aldrei vandi, en hún var bara mjög gróf á hægagangi, eins ólík Landrover og hugsast gat.
Ekki góður bíll.
Opel Insignia biturbo diesel var frekar slow og mjúkur bíll. Líkt og gamall taxi. Aldrei neitt sem ég myndi kaupa fyrir pening, en allt í lagi að leigja. Það var þó pláss í honum. Skutbíll, sko.
Næst kom Toyota.
Þar fann ég hjá mér hvöt til að prófa Prius. Það eru verstu bílar sem framleiddir hafa verið:
Aksturseiginleikarnir eru eins og í einum af þessum bílum í Disneyworld sem eru á teinum, þannig að það skiftir engu hvernig þú snýrð stýrinu, bíllinn bara eltir teinana.
Hann var að auki hastur, og virkaði mjög ódýr, svona eins og kornflexkassi á hjólum. Og hávaðinn! Djöfulsins læti voru í þessari ljósavél sem á að knýja þetta áfram. Ekki var snerpunni fyrir að fara heldur. Og þetta var dýr bíll í ofanálag.
Toyota Landcruiser 150 varð næst fyrir valinu. Það var nú meira báknið. Eitthvað þóttu mér aksturseiginleikarnir í þeim bíl kunnuglegir eftir ekkert langa stund. Svo rann upp fyrir mér af hverju það var:
Landcruiserinn var alveg eins og GMC Jimmi jeppinn hans pabba. Eftir áratuga þróun hefur japananum tekist að skapa hinn mest ideal jeppa, og það er 1988 módel Blazer.
Nema Landcruiserinn er fokkin slow. Vegna þess að smá páver myndi hræða ellimennin sem venjulega kaupa þessa pramma.
Næst prófaði ég Hilux. Hilux er torfærubíll. Hann er brilljant allstaðar þar sem maður hefur enga vegi til að þvælast fyrir. Glataður á malbiki, en samt skárri en Prius. Þegar maður snýr stýrinu á Hilux gerist eitthvað. Auðvitað fór ég uppá hraun á honum og ók þar þvert yfir allt. Það er tilgangurinn með þessum bíl. Langskemmtilegasti og mest traustvekjandi bíllinn, vegna þess að hann er svo hrár og einfaldur. Ekkert sem getur bilað umfram þetta venjulega, það eina sem var að, var að hann var með óþarflega margar dyr og dísel.
Hvaða hálfvitar kaupa dísel viljandi?
Að lokum mætti Benni með Chevrolet.
Chevrolet Spark er alveg jafn skemmtilegur bíll og Hilux, nema þú þarft ekki vegaleysur til að það sé gaman. Og hann er meira en helmingi ódýrari. Mjög hrár og einfaldur bíll. Sá ódýrasti á markaðnum, en engan vegin sá versti. Sá versti er Prius.
Cruze er ... basically .að sama og Opel Vectra, nema ódýrari. Base týpan af Cruze er með 1800 vél, á meðan Vectra er bara með 1400. Þetta er mesti bíllinn sem hægt er að fá fyrir peninginn eins og er, sýnist mér. Ekki góður bíll, miðað við Discovery, til dæmis, en það sama og Vectra, nema betri, og alveg sambærilegur við Yaris, Corollu eða Golf.
Cruze hefur allt sem maður þarf: nógu stórt skott til að koma fyrir líki, nóg vélarafl til að myrða mann ekki úr leiðindum, meiri öryggistilfinningu en Libresse og lægra verð en aðrir bjóða uppá. Mest fyrir peninginn.
Hagkvæmt? Já.
Trax var mjög sendibílalegur bíll. Ekki jeppi í neinum skilningi, eða jepplingur. Týpan sem ég skoðaði var ekki með drifi á öllum. Sem gerir Trax að minni jeppa en Opel Insignia taxinn sem ég skoðaði fyr um sumarið. En hann er ódýrari. Á líka þann vafasama heiður að vera ljótasti bíll sumarsins. Lítur út eins og lifrarpylsa. (Sjá mynd hér að ofan.)
Samt afar einfaldur og þægilegur bíll, sennilega miklu betri kaup fyrir gamalmenni en Rav4. Pláss, vélin hreyfir bílinn, ekkert meira, allt voða komfí. Bakkmyndavélin er standard.
Chevrolet Malibu var svo aftur almennilegur bíll. Kostar það sama og allt annað í sama flokki, FIAT diesel vélin sem knýr hann áfram hefur endalaust torque, engir óþarfa takkar að þvælast fyrir eða neitt svoleiðis bull. Að auki var þetta best útlítandi bíllinn. Var líka með bestu sætin. Ég vil þessi sæti. Allt við þennan bíl virkaði miklu meira solid og dýrara en en í Cruzenum, og var í alla staði magnaðari en Insignian. Besti fólksbíllinn - en þú þarft að borga fyrir þetta. Minna en fyrir Insigniuna samt.
Lokaorð:
Besti bíllinn óháð verði: Landrover Discovery
Besti bíll miðað við verð: Malibu.
Bestu kaup: Cruze.
Skemmtilegasti bíllinn: Spark.
Kom mest á óvart: Landcruiser (hélt þeir væru hættir að framleiða stóra Broncoinn.)
Mestu vonbrigðin: BMW X1.
Versti bíll: Prius. (1995 Corollan mín er betri en nýr Prius, það er svo slæmt. Ég er ekki að ýkja.)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli