laugardagur, ágúst 20, 2005

Dagur 166 ár 2 (dagur 531, færzla nr. 300):

Um daginn var mér tjáð að sést hefði til mín í tívolíinu niðri á höfn. Ég man ekki til þess að hafa komið þangað. Samt ber sjónarvottum saman um að það hafi vissulega verið ég.

Seinna spurði einn vinnufélagi minn mig hvort ég væri skildur einhverjum gæja sem vinnur í skrifstofunni þarna við hliðina á Fíladelfíu. Sá mun vera afar líkur mér.

Með þetta í huga grunar mig að ég hafi illan tvíbura. Ég veit ekki hvað ég á að gera við því. Það getur ekki verið gott ef einhver þarna úti er að koma á mig einhverju óorði, eins og ég sé ekki fullfær um það sjálfur.

***

Nú fer að styttast í skólann. Mæti þar 5. næsta mánaðar. Gæti þurft að hlusta og lesa. Jafnvel skrifa. Sé til með það. Hvað á ég að skrifa um?

***

Strætó. Það er meira ruglið. Akkúrat þegar það var búið að heimta fleiri stoppustöðvar og fleiri vagna með víðtækara neti, þá er stoppustöðvum fækkað og netið grisjað. Þetta kemur sér afar vel fyrir þá sem vinna í Flytjanda, því vagninn stoppar akkúrat rétt fyrir framan hús.

Svo á að banna alla umferð um vissan part gatnakerfisins. Af hverju? Var ekki nógu slæmt þegar aðeins SVR mátti beygja á vissum stöðum? Djöfulsins kjaftæði. Ég spái veseni þegar þeir ætla að fylgja þessu eftir.

úff.

Í Rúmeníu á dögum Sjáseskú var öllum sem voru of geðbilaðir eða vangefnir til að geta tekið þátt í samfélaginu sendir út í sveit þar sem þeir voru bundnir við koppa sem var tæmt úr anna hvern dag eða svo á meðan þess var beðið að þeir dræpust af sjálfu sér.

Á Íslandi er þetta ekki svona. Hér fær þetta fólk vinnu hjá borgarskipulagi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli