miðvikudagur, september 26, 2007

Dagur 215 ár 4 (dagur 1300, færzla nr. 589):

Eitthvert sauðnaut hefur stillt tölvuna þannig að allt er á frönsku. Sem væri hræðilegt ef ég væri að nota ritvinnzluna. Sem ég var að reyna um daginn. Allt á frönsku. Botnaði ekkert í þessu.

Það tekur mig alltaf smá stund að fatta hvernig hlutirnir virka á öðrum tungumálum. Og það verður of mikið vesen ef letrið er öðruvísi, eins og með Rússnesku og kínversku. Þá fer maður bara að giska á eitthvað.

Helmingurinn af frönsku er stolinn úr latínu, alveg eins og enska, svo það er bærilegt... svo langt sem það nær.

Það þarf til dæmis engan stjörnufræðing til að sjá að "Publier le message" lítur út mjög svipað og "publish message", eða hvað stóð eiginlega þarna á engilsaxnesku. Hinsvegar veit ég ekki hvað "sauvegardner maintenant" þýðir. "Skrúðgarðsvörður", kannski? Veit ekki hvað blogg-vélin hefur við slíkt að gera.

Fichier? Huh? Ficterí í hverju?

Blah.

Jæja.. það gæti verið verra. Einhver gæti hafa sett þetta upp á íslensku. Ég hef nefnilega ekki mikla hugmynd um hvað "skrun" er, og "bilstöng" hljómar eins og verkfæri málmiðnaðarmanns.

Ég meina: Skrun? Hvað í fjandanum var fólk að hugsa? Hvað er það? Hvernig gerir maður svoleiðis? Hvernig var slíkt framhvæmt fyrir daga tölvunnar? Notaði maður einhver efni til þess?

Ja, ég spyr, því fyrir 1940 var kúahland notað í allt, hvort sem var til að súta leður eða til drykkjar. Kannski tengist orðið einhverju slíku, ég get ekki sagt.

Það er margt í tækni sem eldgömul orð eru notuð yfir: sími, mörgþúsund ára gamalt orð yfir mjóan þráð. Mús, lítið meindýr, og lítið og meinlegt tæki áfast tölvum núorðið, sem er að því er virðist algengara í náttúrunni en mýs af holdi og blóði.

Í öðrum tungumálumm er notað orðið "scroll" til að lýsa því þegar maður rúllar niður langan texta á ritvinnslu eða á netinu. Því það lýkist því svolítið þegar maður vindur ofan af bókrollu (scroll) til að lesa það sem þar stendur.

Ég nenni þessu ekki. Ætla að fikta aðeins í paneau lateralinu. Hvað sem það nú er.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli