föstudagur, september 28, 2007

Dagur 217 ár 4 (dagur 1302, færzla nr. 590):

Ef einhver byði þér að fara aftur til ársins 1920, aðra leið, myndir þú taka því? Gefum okkur það bara, að þú værir á gangi, og sjálfur andskotinn sprytti uppúr jörðinni og kæmi með þetta tilboð. Engin trikk, þú bara segir já eða nei, og ef þú segir nei, hverfur djöfullinn og ekkert meira gerist, lífið gengur sinn vanagang, en ef þú segir já, þá ferðastu aftur til 1920, og ert bara þar. Svo lifir þú til... einhverntíma bara, eðlilegu lífi miðað við stað og stund.

Jamm.

Fyrst þyrftir þú að finna vinnu. Hana þarftu til að geta borðað og búið einhversstaðar.

Plúsarnir eru náttúrlega þeir, að í denn mátti smíða næstum hvað sem var á hverri þeirri lóð sem maður átti, og lóðir og byggingarefni voru alveg hræbilleg. Maturinn var líka ekkert súper dýr.

En... árið 1920 þurfti venjulegur verkamaður að plotta vel hvað hann gerði við aurinn sem hann fékk, til að vera alveg viss um að hann sylti ekki heilu hungri. Árið 1920 var ekkert óalgengt að það væru í húsum moldargólf, og það í miðri Reykjavík. Árið 1920 var kaldara en nú er, og þá var ekkert óalgengt að fólk dæi úr lungnabólgu, nú, eða innantökum.

Maturinn var líka alveg ferlegur. Það var fiskur í soðið, eða grautur. Eða Kjötsúpa, sem var mölluð í svona viku - mánuð, hve lengi sem hún entist. Sem skýrir innantökurnar.

Það var kannski einn bíll, og kvenfólk og eldri borgarar voru hrædd við hann.

Það gerðist alveg að rónar seldu líkama sinn til læknavísindanna áður en þeir dóu til að eiga fyrir brennivíni. SBR Þórður malakoff.

Það var náttúrlega hægt að flýja til útlanda. Danmörk, til dæmis var miklu betri þá - þrátt fyrir að lungnabólga væri ekkert minna banvæn þar. Danskan skildist nokkurnvegin á þeim tíma, svo og norska og sænska. Enginn "ungdómur", engin Kristjanía, ekkert "ligeglad" kjaftæði. Ég myndi samt halda mig frá Evrópu. Evrópa var ekkert sniðugur staður að vera á milli stríða. En samt... á Íslandi var fólk í moldarkofum til 1940, og í torfhúsum til 1990. Það eimir enn eftir af einokuninni, og það er bara mjög stutt síðan maður varð að fara og rabba beint við bankastjórann til að fá lán.

En, hefði maður mætt á svæðið AD 1920 með svona tonn af skíra gulli, þá horfðu málin öðruvísi við. 20 árum seinn gæti maður átt pleisið. Að því gefnu að spænska veikin gangi ekki frá manni, að sjálfsögðu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli