Dagur 11 ár 4 (dagur 1471, færzla nr. 663):
Skoðum aftur rafmagnsbíla. Ég er búinn að benda á Reva-bílinn, sem mun ná 40 mílum á fyllingu. Sem er of lítið. Bíllinn er nánast óökuhæfur á höfuðborgarsvæðinu, nema fyrir fólk sem ekur grunsamlega lítið. Ég meina, ég ók einusinni 350 km yfir eina helgi, að meðtöldum föstudegi. Það eru meira en 100 km á dag. Og það þarf að skifta um batterí á 3 ára frsti, og þau eru ekkert ókeypis.
En þessi Reva bíll virðist samt besti bíllinn, því samkeppnin er:
Dynasty Rafbíllinn:
Framleiddur í Kanada, og kemst aumar 30 mílur (50 km) á hleðzlunni. Sömu batterí, þyngri bíll. Skárri í útliti og stærri, en jafnvel enn óhagkvæmari. Svo kemst hann varla úr sporunum. Kostar svipað og Reva-bíllinn.
Detroit electric:
Helsti ókostur: ekki framleiddur í næstum 70 ár. En hann komst töluvert lengra á hleðzlunni en Reva bíllinn, eða 80 mílur. Hah! Hámark tækni, eða hitt þó...
Th!nk (sic):
Töff... ekki. (þetta bil á eftir, það er þar sem mennirnir sem voru að ýta stóðu, áður en þeir voru fótósjoppaðir af myndinni.)
Á að komast 170 km ef það er slökkt á miðstöðinni. Og það er sumar. Og ef enginn er í bílnum á meðan. Örugglega lúðalegasti blæjubíll sem völ er á. Og fyrir u.þb 2 milljónir króna, í Evrópu - sem þýðir vel yfir 3.5 hingað kominn, þá er nú skárra að kaupa Ford ka, og aka þeim bíl út.
Zap:
Kínverskur bíll, fánalegur hjá bíllinnsemlíturúteinsoghamstur.com. Nær 60 km/h, og kemst úr úr innkeyrzlunni á aðeins einni hleðzlu. Þar að auki eru bara 3 hjól undir þessu, eins og á Robin Reliant, sem er frægur bíll úr Mr. Bean þáttunum - og við vitum öll hvernig gekk að halda þeim bíl á 2 hjólum.
Tesla:
Sem er ekki seldur hér. Og það er biðlisti. Og bíllinn myndi kosta 13 millur+ hingað kominn. Og hann tekur bara 2 í sæti - (en að halda því fram að Reva bíllinn sé 4 manna er eins og að halda því fram á Pajero-jeppi sé 7 manna, svo það er eiginlega ekkert spes.)
En þessi bíll ber höfuð og herðar yfir allt hér að ofan. Öll tæknin er margfalt betri. Rafgeymirinn á að endast í 150.000 kílómetra, bíllinn á að komast 220 mílur á einni hleðzlu, sem tekur 3.5 tíma að hlaða aftur. Og hann er yfir 250 hestöfl og 4 sekúndur í hundraðið með hámarkshraðann 200 km/klst.
Það er augljóslega miklu betra batterí í honum. Af hverju í dauðanum er ekki þessi rafhlaða í hinum bílunum? Ég er viss um að Reva bíllinn kæmist umhverfis landið á hleðzlunni með þeirri rafhlöðu sem er í Tesla bílnum. Þetta eru rafhlöður eins og eru í símanum mínum! Hvurn andsk...
Bíll með sama krami, en 4 dyrum, skotti og plássi fyrir 4 farþegar og hund myndi slá almennilega í gegn. Það yrði hinsvegar að smíða hann úr einhverju öðru en koltrefjum. Þær eru alveg endalaust dýrar. Bara þakið kostar 3200 dollara, sem er 1/3 af því sem heill Reva bíll kostar út úr búð í útlandinu. Sem þýðir að bara boddíið kostar meira en milljón. Að auki kosta sportbílar alltaf meira í framleiðzlu en allt annað. Svo venjulegur fjölskyldubíll úr áli þyrfti ekki að kosta "nema" 7-8 millur hingað kominn. En ég veit það ekki.
Tæknin er til, þessi bíll sannar það. Af hverju er hún ekki notuð?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli