laugardagur, apríl 19, 2008

Dagur 46 ár 4 (dagur 1506, færzla nr. 674):

Komið að kvikmynd kvöldsins, það er jú Laugardagur:



The Corpse Vanishes, frá 1942.

IMDB gefur henni 3.6 af 10. Það er ekki í neinu samræmi við skemmtanagildi þessa listaverks. Gæðin, að vísu, en ... þetta heldur alveg áhuga í þessar 63 mínútur sem hún varir. Ef þú hafðir gaman af White Zombie, sem ég var með hér þann 18. september í fyrra, þá mun þér líka þessi, þó hún sér ekki jafn góð. Eða kannski vegna þess að hún er ekki jafn góð.

Þessi mynd er afar fyndin á köflum, ekki allan tímann, en þegar hún er fyndin, þá slær hún í gegn:

Tilvitnun:
"Það dó önnur brúður"
"Jess!"

Plottið gengur út á að brjálaður vísindamaður stundar það að eitra fyrir brúðum; brúðgumum og fjölskildum brúðhjóna til mikillar armæðu, skemmtilega siðblindum fréttamönnum til mikillar kátínu; og stela svo líkinu. Dvergur kemur við sögu. Og leynileg rannsóknarstofa.

Já, hver kannast ekki við að hafa komið heim, og hugsað með sér: "Ég vildi að það væri dauð brúður í kjallaranum mínum akkúrat núna?"

Þessi kvikmynd, held ég að ég geti lofað, verður aldrei endurgerð af Hollívúdd. Tæknin sem heldur plottinu uppi er allt of gotnesk, og aðalhetjan er geðsjúklingur (sjá tilvitnun).

Þá er bara að hita smá popp og koma sér fyrir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli