fimmtudagur, apríl 03, 2008

Dagur 30 ár 4 (dagur 1490, færzla nr. 668):

Nú eru vörubílstjórarnir búnir að vera pirraðir í alllangan tíma. Aka um, flautandi, stöðvandi umferð, skapandi fullt af ímyndaðri hættu sem fólk getur nöldrað útaf.

Og flestir virðast standa með þeim.

Fæstir stóðu með Seiving Æsland genginu. En það er nú fullkomlega eðlilega skýring á því:

Seiving Æsland gengið var á fullu að mótmæla byggingu atvinnutækja, sem koma til með að gefa af sér fullt af arði og redda fjölda fólks ágætlega launaðri vinnu. Fólki er ekkert vel við þá sem skammast yfir vel launaðri vinnu.

Vörubílstjórarnir eru að mótmæla þrennu: Ríkið skikkar þá til að hvíla sig öðru hvoru, en hefur enn ekki séð þeim fyrir aðstöðu til þess. Allstaðar annarsstaðar þar sem eru kvaðir á atvinnuökumönnum að þeir hvíli sig, þar er aðstaða fyrir þá. Allstaðar nema hér í Afríku. Í þriðja lagi er kílómetragjald á þeim, sem bara trukkar þurfa að borga. Og það er ekkert lágt.

Mál tvö er bensín og olía. Sem er öllu merkilegra mál:

Við það að eldsneyti á öll farartæki hefur hækað um vel 50%, þá hækka flutningsgjöld í samræmi við það. Við getum alveg tekið kílómetragjaldið inn í þetta enda kemur það á sama stað niður: í hækkun á verði allra þeirra hluta sem fluttir eru með trukkum. Sem stuðlar að verðbólgu, einmitt þegar það er bullandi verðbólga.

Ríkið tekur nefnilega helming alls penings sem fer í bensín, og allt þetta kílómetragjald.

Á sama tíma og allt þetta lendir á vörubílstjórum, þá segjast þessir pjakkar á þingi vera að reyna að halda verðbólgunni niðri.

Jæja...

Nú, seðlabankinn er alltaf að hækka stýrivexti, er það ekki? Myndi einhver spyrja. Það ku virka þannig á kerfið að útlendir peningar komi frekar hingað og setjist að í bönkum. Það virðist hinsvegar ekki vera að gerast, a.m.k ekki í nægum mæli. Það sem hinsvegar er að gerast, er að hækkandi vextir valda fólki sem hefur tekið lán og er að greiða þau upp auknum útgjöldum. Og ekki bara það, heldur eru ýmsir aðrir að borga lán, menn sem flytja inn vörur til dæmis, og menn sem selja vörur eru með aðstöðu í húsum sem þarf að borga lán af, og búa sjálfir í húsum sem þarf að borga lán af. Og allt þetta fer beint í verðlagið, svo það hækkar.

Og hvað köllum við það þegar eitthvað verður dýrara? Jú, það er verðbólga!

Sem sagt: Ríkið er að búa til verðbólgu, en virðist ekki fatta það. Eða það er það sem þeir segja sjálfir. Annað hvort eru þessir gaurar svona ofsalega vitlausir, eða þeir eru að búa til verðbólgu í einhverjum vafasömum tilgangi.

Ég er einna helst á því að þeir séu svona vitlausir. Ef þeir væru ekki vanhæfir, þá væru þeir að vinna annarsstaðar.

Svona líta nú hlutirnir út fyrir mér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli