Dagur 221 ár 4 (dagur 1681, færzla nr. 726):
Í dag sagði vinnufélagi minn mér að við yrðum að rífa klósettið. Það þótti mér undarlegt verkefni, satt að segja. Maðurinn er frá Úkraínu, og það er ekki of auðvelt að skilja hann, en jú, hann sagði mér oft og greinilega að við yrðum að rífa klósettið.
Allt í lagi... ég hafði eiginlega minnstan tíma til þess... þurfti að klára hluti, keyra til Njarðvíkur og svona.
Svo kem ég upp úr hádegi til baka, og sé þá að maðurinn er byrjaður að rífa klósettið - sem er ... var mikið mannvirki, næstum 3 metrar á hæð og 7 á breidd. Eða lengd. Með kúbeini.
Ég hélt hann ætti við að *þrífa* klósettið...
Ekki nennti ég að djöflast við þetta með kúbeini, svo ég sótti lyftara, og ók niður kamarinn.
Þegar við vorum búnir að jafna klósettið við jörðu voru allir farnir, svo við fórum líka. Ég hélt áfram í útkeyrzlum þar til hálf átta.
Ég er enn að velta þessu fyrir mér. Áttum við í alvöru að rífa klósettið? Ég meina, ég fæ upplýsingarnar frá Úkraínumanni, sem gæti þess vegna hafa fengið þær frá Pólverja.
Ef þetta er einhver misskliningur, þá verður sko einhver pirraður á mánudaginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli