Dagur 316 ár 7 (dagur 2871, færzla nr. 1074)
Ég var að velta fyrir mér, af hverju hefur engum dottið í hug að banna hesta?
Ég meina, hver þarf hest? Enginn.
Og það eru víst núorðið næg rök fyrir því að banna hvað sem er... og hafa svosem alltaf verið. En, hvað um það, þetta er nú ekki alveg út í bláinn hjá mér, og ég skal rökstyðja þetta frekar:
Á hverju ári slasast hellingur af fólki, þar á meðal mörg börn, í hestaslysum. Það líður ekki ár án þess að einhver lamist. Fólk hefur dáið.
Hestarnir bíta fólk, stíga á fætur manna, sparka í þá og missa þá af baki. Þessi hegðun hrossa er eins hvort sem á í hlut fullorðnn maður, kona eða barn af hvoru kyni sem er.
Hættan endar ekki þar, heldur er ekkert óalgengt að hross séu á vappi á vegum landsins, í myrkri, algerlega án allra endurskynsmerkja, með eða án knapa. Af þessu hafa þegar hlotist fjölmörg mjög alvarleg slys, þar á meðal banaslys.
Og svo er óþrifnaðurinn af hrossahaldi: stór svæði í Reykjavík og víðar lykta eins og Vesterbrogade, bara vegna þess að hesthús eru í nágrenninu. Svo veit maður líka alltaf hvar hestamenn hafa verið á ferð, því í slóð þeirra liggur löng, oft óslitin lína af taði. Það er af þessu óþrifnaður, smithætta og kostnaður við þrif.
Fólk kvartar nú þegar yfir því að kettir gangi örna sinna í sandkassa. Hestar gefa frá sér tað í hvert skifti sem er að rúmmáli meira um sig en heill meðal-köttur.
Það þarf enginn hest, og þeir eru skaðlegir á nokkra mismunandi vegu. Þess vegna legg ég til að þeir verði allir gerðir uppteknir með lögum, og þeim eytt til hagsmuna og öryggis fyrir almenning.
Það eru til bílar núna, strætisvagnar og taxar, sem menn geta ferðast í, og eru þar öruggari og til minni vansa en á hestbaki. Ef menn þurfa að vera í einhverjum kábojleik, geta þeir farið til útlanda, og slasað sig þar.
Hugsið um börnin, bannið hesta nú þegar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli