föstudagur, nóvember 30, 2012

Dagur 267 ár 8 (dagur 3188, færzla nr. 1155)

 Var að velta fyrir mér... hvað ætli ríkið kosti ríkið mikinn pening á ári?

 Ég meina þá, hve miklu fé verður ríkið sem slíkt af vegna eigin heimsku? Skoðum það aðeins: Bara á síðasta ári varð ríkið af næstum 5 milljörðum vegna þess að fólk flýði land. Það skrifast alfarið á verk ríkisins.

 Útlend lán voru í lok árs 2011 448 milljarðar. Þau voru tekin vegna þess að þessir bjánar eyddu umfram getu eins og venjulega. Vextir af því eru peningar sem við fáum aldrei aftur, og nýtast ekki í neitt.

 Árið 2011 voru 10 ráðuneyti, sem samanlagt kostuðu yfir 500 milljarða. Fljótt á litið eru þau 3-4 of mörg, og taka hvert og eitt yfir of stórt svið. Þar er strax hægt að spara lágmark 190 milljarða. Það verður aldrei gert.

 Sjáið til, hver einasti ríkisstarfsmaður er tapað fé, því hann framleiðir ekkert, og kemur þess vegna ekki með neitt inn í kerfið. Svo eftir því sem þeir eru færri, því betra er það.

 Svo eru flóknari lagalegir hlutir sem hafa verið við lýði lengi, eins og lög sem ýta undir kennitöluflakk. Ég efast nefnilega um að það hafi nokkurntíma verið landi, þjóð eða ríki til hagsbóta að sömu fyrirtækin væru að fara á hausinn með reglulegu millibili.

 Það eru 4 mismunandi skattar og gjöld á bensín. Þetta er ekki eina dæmið um of flókið kerfi, en þetta er það best þekkta. Það felst í því auka kostnaður að vera með hvert og eitt gjald, sem dregst frá nýtilegri upphæð, svona svipað eins og orkutap verður frá vél og út í hjól á bíl. Meira fengist inn ef bara væri eitt gjald, og það þó það væri talsvert lægra en hin 4 samanlagt. Að framkvæma slíkt kæmi sér vel fyrir alla, og verður þar af leiðandi aldrei gert.

 Margt svona stundar ríkið. Allt sem það gerir virkar annað hvort alveg öfugt, eða illa á einhvern alveg óvæntan hátt. þetta á við bæði um fjármál þess og annað sem því dettur í hug. Í reynd vinnur það eins og maraþonhlaupari, sem hefur ákveðið að keppa alltaf með fötu fulla af sementi á öðrum fætinum, og hefur tekið eftir því að það virkar ekki, of er þess vegna að hugsa um að setja aðra sementsfötu á hinn fótinn, til að komast hraðar. Og þetta virðist fólk vilja, því alltaf kýs það sama fólkið...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli