fimmtudagur, nóvember 01, 2012

Dagur 238 ár 8 (dagur 3159, færzla nr. 1149)

Hafiði nokkurntíma pælt í hve geimverur eru mikilvægur hluti af poppmenningunni?

Sjáið til, allt er betra með geimverum.

1: Hugsið ykkur til dæmis hve ET hefði verið slök kvikmynd ef ekki hefði verið fyrir geimverur.  Já.  Þá hefði þetta bara verið einhver krakki, sem bara er þarna.  Og... ekkert.

2: Eða hvað með Star Trek?  Það væri lítið varið í Star Trek ef það væri bara eitthverjir gaurar á fljúgandi iPhone skoðandi auð himintungl.  Jú, vissulega eru gróðursnauðar auðnir voða VinstriGrænar og allt það, en við erum ekki komin til að sjá það.  Við viljum sjá Klingona!

Engir Klingonar = ekkert aksjón.

3: Kvikmyndin "Alien" hefði sökkað mjög innilega ef það hefði ekki verið í henni geimvera.  Þá hefði þetta bara verið eitthvað lið á einhverjum fraktara, siglandi um himingeiminn, drekkandi kaffi, kannski spilandi Ólsen Ólsen.

4: Dune er ekkert sérlega spennandi án sand-ormanna.

Á hinn bóginn er skortur á geimverum annarsstaðar.

Til dæmis, þá væri Anna í Grænuhlíð miklu betri með geimverum.  Ég sá einusinni nokkra þætti þar sem Anna í grænuhlíð var á tunglinu að berjast við eitthvað lið á risa-vélmennum, og það var nokkuð töff.  Hugsið ykkur bara Anna í Grænuhlíð + Star Wars, gert af Disney, og þá hafiði það.  Það eina sem hefði hugsanlega gert það betra væri geimverur.


Bara til að sýna að ég er ekki að búa þetta til.

James Bond hefur aldrei barist við geimverur.  Það þarf að ráða bót á því.  Hann fór út í geim einusinni... ég hugsa að ef Roger Moore hefði enst í 2-3 myndir í viðbót þá hefðu komið geimverur.

RoboCop barðist aldrei við eina einustu geimveru.  En - til þess að sjá hve töff það hefði verið þarf ekki annað en að horfa á Starship Troopers.  Sú mynd þurfti RoboCop.  Við þurfum að gauka þessari hugmynd að Verhoeven.

Conan the Barbarian og geimverur.  Það þarf að gerast.  Reyndar var He-Man svolítið í því.  Það er næstum  akkúrat það.  Og við sáum hve vel það gekk.  Brilljant alveg.

En samt, það sem mest þarfnast geimveruinnrásar: þessir ferlegu Pressu-þættir.  Ekkert nema leiðinlegir fréttamenn og leiðinlegir bófar og leiðinlegir útlendir sjoppukallar.  Þeir þurfa skemmtilegar geimverur til að hrista upp í hlutunum.  Það þarf sérstakan talent til að klúðra svoleiðis snilld.

Heimur án geimvera er hálf grár eitthvað og óspennandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli