fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Dagur 268 ár 4 (dagur 1728, færzla nr. 738):

Þessi mynd þýðir að mér tókst að skrifa 150 blaðsíður á 26 dögum. Þetta hefst alltaf með þrjóskunni. Fer í það eftir jól að renna yfir afraksturinn og lagfæra mesta torfið. Það er alltaf eins: fyrst er mesta bullið lagað eða strokað út, svo er bætt við ef eitthvað er óljóst.

Þetta er allt mjög óljóst núna. Óljósara en venjulega, það er að segja.

Í millitíðinni býst ég við að þurfa að lesa yfir próf og vinna og... eitthvað annað sem mér dettur í hug að starfa.

***

það verður ekki beint sagt að kreppan hafi mikil áhrif á mín lífsgæði. Ég hef lifað að svo miklu leiti á súpu og skyri, og hafragraut - sem amma segir samt að sé ekki hægt að kaupa úti í búð. Hún segir það alltaf við mig þegar málið ber að góma: "Ha-ha! Það er ekkert hægt að kaupa hafragraut út í búð! Ha Ha!"

Sem minnir mig rosalega mikið á þá félaga Jón & Tóta.

Það er kannski ekki hægt að kaupa hafragraut í hennar vídd, en í minni vídd er það ekki bara hægt, hann er ódýr.

Svo er hægt að fá núðlur, þær kosta slikk. Eru að vísu búnar til í Kína, sennilega úr Melamíni, bragðbættar með Díoxíni. Það er svolítið saltbragð af því.

Einnig eru piparkökur lífs nauðsynlegar. Þær er líka auðvelt að kaupa út í búð, fyrir peninga. Ekki láta ömmu segja þér eitthvað annað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli