laugardagur, ágúst 15, 2009

Dagur 163 ár 5 (dagur 1988, færzla nr. 822):

Ég fann köttinn. Málið var að þau vissu ekki hvar dýrið var þegar þau fór, en ypptu bara öxlum, og héldu af stað. Um kvöldið fór ég niður í kjallara. Þá fannst mér sem ég heyrði í kvikyndinu. Ég hélt það héldi bara til þarna undir einhverju. Svo ég hafði engar áhyggjur af því.

Svo fór mér nú að þykja undarlegt að dýrið skyldi ekki láta sjá sig uppi. Svo um kvöldið daginn eftir datt mér í hug að kíkja niður í bílskúr.

Þar var kötturinn. Gaman af því.

***

Nú skilst mér að verið sé að samþykkja Æseivið. Samkvæmt þeim fregnum sem hafa borist frá þeim samningi - sem annars er að öllu leynilegur - þá verður Ísland nýlenda Breta ef Drottningin fær ekki konfektkassa með reglulegu millibili. Fyrsti afhendingardagur var í gær.

Svo, gott fólk, búum okkur undir að taka aftur upp akstur á vinstri vegarhelmingi, aukna tedrykkju, RÚV verði fellt nður og BBC sett í staðinn og Þorlákshöfn verði endurnefnd "New Blackpool."

All hail Britannia.

***

Aftur að teiknimyndum:

Það er ekki hægt að nefna anime án þess að fjalla aðeins um risastór vélmenni. Það væri eins og að tala um Grænland og sleppa að nefna jökulinn. Helsta risa-vélmenna þáttaröðin er Gundam serían. Hún er að megninu til hér. Þetta er eins og Star Trek - nema öðruvísi. Nördarnir eru eins, en allt hitt er öðruvísi.

Þættirnir sem slíkir eru stórfurðulegir. Plottið og framvindan í þessu minnir miklu meira á Sharpe's myndirnar en nokkurntíma venjulega teiknimynd. Svo er útlitinu meira og minna stolið úr 2001, Star Wars og Flash Gordon. (Maður myndi halda að útlitinu væri öllu eins og það leggur sig stolið úr Sharpe's líka, en þetta byrjaði 1979, og Sharpe byrjaði 1994.)

Það eru þarna gaurar sem geta séð nokkrar sekúndur fram í tímann, lesið hugsanir, og svo eru geislasverð. Jedi risa-vélmenni.

Fyrsta serían floppaði algjörlega. Krakkar nenntu engan vegin að sitja undir kuldalegu og niðurdrepandi prógrammi um stríð, þar sem aðalpersónan er frekar pirrandi (kannski skiljanlega) og allir eru óttalegir skúrkar. Vélmennin verða skotfæralaus, bensínlaus... Svo bilar allt. Þá deyr hellingur af liði. Ekki beint Transformers.

Ef ekki hefði verið fyrir nörda, og áhuga þeirra á módelum, sem hægt er að fá hér, meðal annars, þá hefði enginn gert fleiri þætti. Það kom sára lítill peningur inn af því að sýna þessa þætti. Hinsvegar halda módelin þessu öllu uppi, og vel það.

Og ef ekki hefði verið fyrir alla þessa nörda sem eru tilbúnir til að fjármagna vélmenna-kit iðnaðinn, og þar með vélmenna teiknimynda iðnaðinn, þá væru vélmenna teiknimyndir öðru vísi. Klysjurnar væru aðrar.

Til dæmis þá er nokkuð ljóst að ef plottið snýst um risastór vélmenni á einhvern hátt, þá deyr alltaf megnið af karakterunum. Þetta nær súrrealískum hæðum í Neon Genesis Evangelion, þar sem gjörsamlega allir á jörðinni farast. En ekki fyrr en allir hafa snappað og reynt að drepa alla. Svo varð fyrirtækið sem framleiddi þættina gjaldþrota og síðustu tveir þættirnir eru teiknaðir með vaxlitum. Illa.

Sko, evangelion eru þættirnir þar sem risastórt vélmenni, sem er með framlengingarsnúru eins og ryksuga, drepur helling af englum, og notar til þess dúkahníf. Það er plottið. Bara...

Nei, gaurarnir sem stóðu á bakvið þetta voru ekkert í andlegu jafnvægi.

Gaurarnir sem gerðu Tengen Toppa Gurren Lagann, hinsvegar... með öllum mjalla og edrú.

Sama fyrirtæki og gerði Gundam þættina gerði svo Code Geass. Nei... þetta. Þetta er nokkurnvegin það sama og Gundam, en...

Hvaðan fá þeir öll þessi vélmenni? Kannski fylgja þau með pizzunum... nóg er borðað af þeim. Pizza Hut er svona eins og kakkalakki, það er sama hvur andskotinn kemur fyrir á jörðinni, það er bara söguleg nauðsyn að Pizza Hut mun alltaf lifa.

Hvað er ég að meina?

Jú, Code Geass gerist í undarlegum heimi þar sem Bretar (!) hafa lagt undir sig Norður Ameríku og gert þaðan innrás í Japan. Á Risavélmennum, auðvitað. Og þeir hafa rifið öll hefðbundnu japönsku húsin og smíðað litlar eftirlýkingar af Versölum allstaðar í staðinn. Og allir borða Pizzu.

Og aðal gaurinn er í skóla þar sem nemendaráðið hefur aðgang að risastóru vélmenni... til þess að geta gert risastórar pizzur. Ef Pizza Hut gaurinn er í fríi.

Og aðal gaurinn er göldróttur, þannig að hann getur gert svona jedi-mind trick við alla. En ekkert annað. Þvílíkur töframáttur, það. Og hann notar það ekki á sama hátt og maður myndi búast við af framhaldsskólagutta. Nei, hann notar það til að ná heimsyfirráðum.

Háalvarlegt prógramm, þetta. Og einna skásta vélmenna prógrammið. Þó það fjalli um pízzu-étandi Batman-wannabe sem keyrir risa vélmenni. Eða kannski af því...



Pizza Hut styður byltinguna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli