föstudagur, september 09, 2005


Dagur 186:

Ég fór út að keyra í gær. Vetrarvinnan. Góð afsökun til að keyra gamla veginn við Hafravatn. Hratt. Auðvitað. Malarvegir eru sniðugir þannig að maður virðist fara miklu hraðar á þeim en maður fer í rauninni. Til dæmis virðist maður vera á 150 kílómetra hraða þó maður sé í raun ekki á nema 145 kílómetra hraða.

Tékkið á þessu.

Annars er það svo að Reykjavík er ekki hönnuð með sendla í huga. Götur eru oftast þannig merktar að það er eins og ætlast sé til að það sé komið að þeim úr vissri átt. Komi maður úr hinni áttinni má maður ekkert vita hvað gatan heitir. Ég veit ekki afhverju þetta er, en mig grunar að það sé svona vegna þess að einhver í skipulaginu er fífl.

Þegar ég var seinast í útlandi, þá tók ég eftir því að það var afar erfitt að komast hjá því að vita hvert maður var að fara. Hér er þetta öðruvísi. Ég lenti einusinni í því að finna ekki innkeyrslu inn í eina götu. Ég sá húsið, en stjörnurnar voru ekki réttar eða eitthvað, svo leiðin inn fannst ekki. Samkvæmt kortinu voru tvær leiðir inn.

Að lokum stoppaði ég í sjoppu og spurði hvernig ég kæmist inn í götuna. Þar var mér tjáð að aðeins væri unnt að fara inn í þessa götu á fullu tungli, og með því að kyrja textann "Simbi sjómaður" á meðan hreinar meyjar mökuðu kindablóði á nakta líkama hvorrar annarrar.

Ég veit ekki hvernig ég á að geta afhent þennan pakka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli