fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Dagur 163 ár 4 (dagur 1623, færzla nr. 706):

Og þá hefur Tóti Rafvirki blandað sér í rifrildið. Í tilefni af því rifrildi (nota bene, ekki rökræðum eða samtali, rifrildi,) þá fann ég hjá mér hvöt til að athuga hvort það væru ekki örugglega 7 bæjarfulltrúar.

Svo reyndist vera. Það er þó rétt hjá þeim. Þessi stutta leit færði mér líka upplýsingarnar sem ég var að leita að:

6. gr.
Meðal verkefna bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar er:

1. Að kjósa forseta og varaforseta bæjarstjórnar, bæjarráð og aðrar nefndir, ráð og stjórnir , kjósa skoðunarmenn til þess að yfirfara ársreikninga bæjarins og ráða löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinna skal að endurskoðun hjá bænum.
2. Að setja samþykktir og gjaldskrár, eftir því sem lög mæla fyrir um og þörf krefur.
3. Að stjórna fjármálum bæjarins, stofnana hans og fyrirtækja, skv. ,VI. kafla sveitarstjórnarlaga sbr. og VI. kafla samþykktar þessarar. ,
4. Að ákveða stjórnkerfi bæjarins og ráða bæjarstjóra og aðra starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá bænum.


Þetta fannst Jóni erfitt að segja. Og ég fæ ekki séð að það þurfi meira en 3 gaura til að standa í þessu. Eða svo marga.

Hvað þarf til dæmis margar nefndir, ráð og stjórnir?
Það er vissulega þörf á aðilum til að fara yfir ársreikningana, en því ekki halda útboð? PriceWaterHouseCoopers gæti keppt við Deloitte og KPMG um hnossið. Hægt væri að ráða tvo og sjá hvort þeir komast að sömu niðurstöðu.

Þetta er allt vinnandi vegur fyrir einn mann, sýnist mér.

Tóta var tíðrætt um að það væri svo lýðræðislegt að hafa svona marga bæjarfulltrúa.

Hvernig? Jú, þeir væru allir kosnir.

Sko, lýðræði hefur ekkert með fjölda stjórnenda að gera. (Við skulum ekki ræða of mikið um mótmæli þín og Jóns um að konungar Danmerkur og Noregs hafi ekki verið kosnir, þeir voru víst kosnir, og það af Jörlunum sem áttu að vera undir þeim. Hvað voruð þið tveir tossar eiginlega að gera í Barnaskóla?)

Lýðræði gengur út á að fólk velji hvað það vill að gangi yfir sig. Og þá er ég ekkert að meina að allt fólkið ráði, bara þeir sem nenna að kjósa.

Það er beint lýðræði þegar fólk kýs lög yfir sig milliliðalaust - svoleiðis var gert í Aþenu, eins og frægt og gleymt er orðið, og er gert í Sviss. Ámóta stór hluti af Grikkjum kaus og kýs nú af Svisslendingum, en af mismunandi ástæðum.

Við hér á vesturlöndum höfum fulltrúalýðræði, sem gengur út á það að við, fólkið, fáum að kjósa þann sem er minnst ósammála okkur.

Sem er slæmt ef maður er ekki annað hvort fasisti eða kommúnisti.

Sumir vilja meina að það sé stór munur á þessum tveimur stefnum.

Því hefur verið haldið fram að það sé enginn munur, og það rökstutt ítarlega í bók sem allir hafa heyrt um en fæstir lesið. Verið ein af hinum fáu. Ég skora á ykkur.

En það er munur: Fasisti er bara kommúnisti með pening.

Hvað um það. Eina skilyrði þess að það sé lýðræði er að einhver, amk einn, mæti og kjósi milli helst tveggja kosta.

Venjulega er ekki tekið mark á kosningum nema visst hlutfall af þýðinu mæti, misjaft eftir svæðum. Í Sviss þurfa 50.000 manns að skrifa undir ef þeir vilja kjósa um eitthvað sem löggjafinn hefur hent í þá óforspurða. Má þá gera ráð fyrir að þeir vilji sæmilega mætingu á þetta.

Það er alveg jafn lýðræðislegt ef þýðið kýs einn mann af tveimur, einn mann af 200 eða 20 menn af 21. Það eina sem þarf til að það sé lýðræði er að lýðurinn kjósi.

Kosningar eru svosem engin trygging fyrir lýðræði - sjá Dönsku Jarlana sem Tóti og Jón vita ekkert um.

Og lýðræði er ekkert trygging fyrir því að "rödd almúgans" Fái eitthvað að heyrast. Samanber Grikkirnir. Þeir leyfðu ekkert hverjum sem er að kjósa.

Ef almúginn vill stjórna, þá á hann að kjósa. Ef þeir vilja meira lýðræði, kjósið þá oftar. Nema hann kjósi anarkí, sem er nákvæmlega ekki það sem fólk upp til hópa vill.

***

Næst nenni ég ekki að spyrja kaffibrúsakallana, heldur fer beint á netið að tékka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli