fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Dagur 177 ár 4 (dagur 1637, færzla nr. 709):

Mikið andskoti er búið að gera mikið úr þessu handboltaliði. Af hverju er þetta ekki gert oftar? Þeir hefðu til dæmis geta farið með Völu stangastökkvara í blómapramma nokkra hringi um tjörnina hér um árið, þegar hún kom með medalíu. Af hverju var það ekki gert?

Svo fengu þeir fálkaorðuna. Sem er alveg gott og blessað - en: sú orða er orðin nokkuð merkingarlaus. Sjáið bara hverjir hafa verið að fá hana hingað til:

þessir fengu fálkaorðu 17. júní árið 2000:

Auður Garðarsdóttir, formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar, Reykjavík, riddarakross fyrir störf að safnaðarmálum.

Bjarni Guðráðsson, organisti, Nesi í Reykholtsdal, riddarakross fyrir störf að kirkjutónlist og varðveislu menningarminja.

Bolli Gústavsson, vígslubiskup Hólum í Hjaltadal, stórriddarakross fyrir störf í þágu kristni og kirkju.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, Reykjavík, stórriddarakross með stjörnu fyrir störf í opinbera þágu.

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, Reykjavík, stórriddarakross fyrir störf í opinbera þágu.

Helga Soffía Konráðsdóttir, formaður Prestafélags Íslands, Reykjavík, riddarakross fyrir störf í þágu kristni og kirkju.

Herra Jóhannes Mathijs Gijsen, biskup kaþólskra, Reykjavík, stórriddarakross fyrir störf í þágu kristni og kirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, Reykjavík, stórriddarakross með stjörnu fyrir störf í þágu kristni og kirkju.

Kristín Möller, Reykjavík, KFUK, riddarakross fyrir kristilegt starf.

Rannveig Fríða Bragadóttir, óperusöngkona, riddarakross fyrir tónlistarstörf.

Sigurður Sigurðsson, vígslubiskup, Skálholti, stórriddarakross fyrir störf í þágu kristni og kirkju.

Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir störf að sveitastjórnarmálum.

Sólveig Pétursdóttir, kirkjumálaráðherra, Reykjavík, stórriddarakross fyrir störf í opinbera þágu.

Vilborg Dagbjartsdóttir, kennari og rithöfundur, Reykjavík, riddarakross fyrir fræðslu og ritstörf.


Hetjulegt. Afar hetjulegt.

Nú verður ekki talað um neitt annað næstu árin en nauðsyn þess að allir læri handbolta, forvarnargildi handbolta, hve handbolti er góður fyrir hægðirnar, og hve góð áhrif handbolti hefur á veðrið. Svo verða lagðir sér-stígar fyrir handboltamenn. Þeir verða við hliðina á stígunum fyrir Íslenska Hestinn.

Talandi um Íslenska Hestinn: einu sinni var verið að tala um að hafa hlöðu í leifsstöð þar sem hægt væri að Geyma nokkra Íslenska Hesta, til að taka á móti þjóðhöfðingum. Þarf ekki nú að koma upp bröggum til að geyma handboltamenn til að taka á móti þjóðhöfðingjum.

Ég sé þetta fyrir mér svona:

Þjóðhöfðingin lendir, og fyrst heilsar hann forsetanum, svo ráðherrunum, svo klappar hann Íslenska Hestinum, svo hittir hann handboltamennina, komplett með orðum, svo legg ég til að hann fái sé einn öllara með Forsetanum, og svo... getur hann farið með limmó í næsta kokteilpartí.

Eða þeir geta sameinað þetta:

Þjóðhöfðinginn getur farið úr KEF sitjandi á Íslenskum Hesti, með Íslenska Landsliðinu í Handbolta, líka sitjandi á Íslenskum Hestum, veifandi fánum.

"Við gerum Okkar besta*" verður gert að þjóðsöng, svo losum við okkur við þennan upphlut og allt það drasl, og tökum upp handboltagallann sem íslenska þjóðbúninginn. Það er aðeins öðruvísi silfur á þeim, en hey...

*Fyrir kaldhæðni örlaganna, þá segir í textanum: við gerum okkar besta, en aðeins betur en það er það sem þarf. Hmm... Ja, það er betra en þetta helvítis lifandi dauða blóm.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli