Dagur 322:
Þú!!!
Samkvæmt einföldu leikskólareglunni þinni, get ég ekki tjáð mig um þig. Eða nokkurn annan. Og þú ekki um mig. Neibb. Ekki hægt. Því að: Ef þú segir eitthvað um aðra þá ertu það sjálfur og margfalt meira. Eða, eins og littlu krakkarnir segja: "Þú ert það sem þú segir sjálfur".
Sem er bara rangt.
Við skulum fyrst fara út í hvernig það er rangt, röklega:
Ef ég segi við þig, Þóranna: "Þú heimska kona!"
Hvað gerir það mig? Er ég eitthvað af þessu? Við skulum einfalda þetta aðeins:
A gengur upp að B, og segir við B: "B=B".
En samkvæmt kenningunni hér að ofan, er þetta rangt, því allt það sem A segir, getur einungis gilt um A. Semsagt:
A gengur upp að B, og segir við B: "B=A".
Sem sagt, mjög margt sem maður segir um sjálfan sig er rangt, því það á við um eiginleika sem maður ætlar öðru fólki. Ég er í raun bundinn við að tala aðeins um sjálfan mig. Ég veit að ég er stórmerkilegur náungi og allt það, en það er svo mikið af liði þarna úti sem ég tel mér trú um að ég þurfi að tjá mig eitthvað um.
En er það það eina? Er þetta aðeins bundið við fólk? Hvað með dýr?
Ef ég segi til dæmis: "En hvað þetta er loðinn köttur", er ég þá ekki að segjast vera loðinn köttur? því þú manst, að ég er allt sjálfur sem ég segi við aðra, rétt?
En um hluti? Staðhæfingin: "Þetta hús er rautt", ber það með sér að ég er að segja eitthvað um eitthvað sem er ekki ég, og ég get ekki talað um neitt annað en sjálfan mig, svo ég hlýt að vera rautt hús, ekki satt?
Eða er þetta alfarið tengt fólki?
Skoðum nú hvernig er rangt að halda þessu fram út frá notkun tungumálsins sjálfs:
Ef þú segir eitthvað um aðra þá ertu það sjálfur og margfalt meira.
Að segja eitthvað um einhvern annan er að segja hvaða álit ég hef á einhverjum, hvað ég sá einhvern aðhafast, hvað ég held að einhver hafi verið að aðhafast, ýmis vitneskja sem ég hef um einhvern; hvað hann er þungur, gamall, hár í loftinu, hvar hann býr.
Ég get einungis talað um mig. Ég get einungis lýst mér, tjáð mig um mig. Ég get ekki sagt frá neinum öðrum, hvorki til góðs né ills. Hluti tjáningar-getunnar hefur verið fjarlægður.
Ég get ekkert sagt um þig.
Ég get ekki sagt: "Þóranna er svo vinaleg og góð stelpa", því það getur aðeins þýtt: "ég er vinaleg og góð stelpa", og ekki bara það, ég er margfalt vinalegri og betri stelpa en ég er. -því ég get ekki tjáð mig um aðila sem eru ekki ég.
Sem þýðir, að ef ég reyni að tjá álit mitt á öðru fólki, er ég að ljúga einhverri bölvaðri steypu uppá sjálfan mig. Ekki er ég vinaleg og góð stelpa. Ég væri það ekki jafnvel þó ég færi í kjól og háhælaða skó. Gleymdu því.
Ég get ekki einusinni sagt hvernig hárið á þér er á litinn. Ég get logið til um minn eigin háralit, en get ekki tjáð mig um þinn.
Skoðum aðeins siðferðilega vandamálið sem kemur upp:
Er rétt að segja þetta við litla krakka? Ræna þá getunni til að tjá tilfinningar sínar í garð annarra? Lýsa útliti fólks í eigin orðum? Minnka við þá notkunareiginleika tungumálsins?
Við yrðum að tjá okkur eingöngu með látbragði: ef mér væri illa við þig myndi ég neyðast til að slá þig, því ég gæti ekki sveiað þér í orði, ef mér væri hlýtt til þín yrði ég að klóra þér bak við eyrað, og svo framavegis.
---
Ég segi, leyfum fólki að segja "þessi og hinn er fífl". Í nafni tjáningarfrelsis. Við erum ekkert bundin við það að trúa hverju orði sem einhver gaur af handahófi segir um einhvern sem við höfum aldrei hitt. Og leyfum okkur ekki að dæma af eigin orðum þá fífl sem kalla aðra fífl. Hver veit nema þeir hafi rétt fyrir sér?
Amen.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli