föstudagur, október 21, 2005

Dagur 228 ár 2:

Auglýsingar eru alveg sérstök fyrirbrigði á dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Reyndar líka í útvarpi, en þar eru þær reyndar meiri truflun frá músík - ef frá er skilið þetta stutta tímabil þegar Sigurjón Kjartansson og co voru að auglýsa Domino's pizzur.

Ég furða mig stundum enn á þvottaefnisauglýsingunni þarna með hrukkóttu kellingunni.

"Hey þú!" segir kelling. Maður heyrir í henni og röltir nær henni. Þegar hann kemur í færi skvettir hún á hann einhverjum litsterkum vökva.

"Hann er undrandi, en það er ég ekki," segir kelling.

Auðvitað er hún ekki undrandi, hún gerði þetta! Hún vissi allan tímann að hún gerði þetta.

Nú er komin önnur auglýsing fyrir þetta þvottaefni sem ég hef enn ekki náð að festa athyglina við.

Svo er auglýsingin með bílnum hans Ofur-Baldurs. "Allir hafa sitt stolt," segja þeir. Hvað er athugavert við bílinn hans Ofur-Baldurs? Þetta er eins og Kadilakk, segir hann, lítur kannski út eins og uppblásinn Ástin Míní, en nú til dags líta allir bílar út eins og sandkassaleikföng hvort eð er.

Svo er meira óþolandi gerð auglýsinga:

"Ég ætla bara að bíða!" tilkynnir mér rödd. Eftir hverju? Kemur ekki á daginn að þetta er ein af þessum fjölmörgu "ekki gera þetta" auglýsingum. Ef hlutirnir eru enn eins og þeir voru þegar ég var yngri er nú verið að gera grín að þeim sem tóku þátt í þessari auglýsingu, hvort sem það er gert góðlátlega eða ekki.

Mér líkaði betur við auglýsinguna þar sem gæinn henti krakkanum niður stiga. Það var fyndið nokkrum sinnum í röð. Auglýsingin þar sem gæinn keyrði á vin sinn, augljóslega viljandi varð ekki fyndin fyrr en eftir tvö þrjú skifti - þegar ég veitti því athygli að gæinn tók róttæka beyju lengst uppá gangstétt til að aka yfir félaga sinn - og varð svo smám saman gömul.

Ég er enn að velta því fyrir mér, gleymi því enda alltaf jafnóðum, hvort auglýsingin með fljúgandi reiðhjólinu er ein af þessum auglýsingum, eða hvort það er bara tryggingafélag að selja líftryggingar.

***

Ég er enn að bíða eftir að einhver geri almennilega kvikmynd. Ef auglýsingarnar eru orðnar svona tilkomumiklar, afhverju eru þá allar íslenskar kvikmyndir ennþá svona, ja, fúlar. Kannski þarf bara sú kynslóð sem öllu ræður ennþá að leggjast í helgan stein, eða undir helgan stein.

Þá kannski gerir einhver kvikmynd um menn sem keyra yfir fullt af börnum á reiðhjólum, og fullt af gangandi vegfarendum uppá gangstétt, og aka því næst á fullu inn í kringluna í leit að auðveldari bráð.

Ég myndi borga fyrir að sjá það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli