fimmtudagur, október 27, 2005

Dagur 234 ár 2:

Þá er komið að stjörnuspánni:

Vatnsberinn:

Í dag er góður dagur fyrir vatnsberann að panta pítsu og horfa á sjónvarp.

Fiskurinn:

Óvæntur atburður mun henda fiskinn í dag - nema hann lesi þetta, þá býst hann við honum.

Hrúturinn:

Hrúturinn þarf að róa sig niður í dag, fá sér kakó, kleinur og svo kannski að leggja sig aðeins í sófanum.

Krabbinn:

Krabbinn er mjög meinlegur í dag, sem og aðra daga.

Ljónið:

Í dag er ljónið á veginum.

Nautið:

Nautið hefur verið hálf beljulegt í dag, og mun þurfa að beita bolabrögðum til að líða betur.

Tvíburarnir:

Annar tvíburinn er með alvarlega lifrarskemmd sem mun draga hann til dauða fái hann ekki heilbrigða lifur fljótlega. Hlauptu, heilbrigði tvíburi! Hlauptu!

Meyjan:

Meyjuna grunar að sinn heittelskaði leiti til annarra kvenna á bak við sig. Það gæti verið rétt, er meira að segja mjög líklegt, því hann fær aldrei neitt hjá meyjunni.

Vogin:

Vogin gæti hugsað til þess hvort hún er löggild. Þær vogir sem eru á Vogi eru örugglega löggildar.

Sporðdrekinn:

Sporðdrekinn lifir í þeirri blekkingu að hann sé heppinn. Lukkutölur hans eru 2 & 14.

Bogmaðurinn:

Veðurspáin er ekki hliðholl Bogmanninum. Veðrið sjálft er afar hrifið af honum, en spáin er honum andsnúin. Illt er í efni.

Steingeitin:

Í dag er góður dagur fyrir steingeitina að leigja spólu, td "Capricorn One" með OJ Simpson og gæjanum þarna í Law & Order, og borða poppkorn.

Þetta var stjörnuspáin. Vona að þið hafið gagan af.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli