sunnudagur, desember 18, 2005

Dagur 285 ár 2 (dagur 650, færzla nr. 347):

Hjálpum þeim er sagt. Fólk teygir sig í veskið, og gefur hjálpastofnun kirkjunnar og rauða krossinum - sem mun brátt heita "rauða merkið" til þess að vera alveg pólitíkst correct - sinn fimmhundruðkallinn hvorum.

Svo klofar það yfir rónann sem sefur á gangstéttinni til þess að komast í hlýja kaffihúsið sitt, og drekka kaffi sem er næstum jafn dýrt og bjór.

Það líður ekki það ár án þess að minnsta kosti einn róni verði úti. En við hjálpum ekki þeim. Við hjálpum vannærðum börnum í Eþíópíu, fórnarlömbum jarðskjálfta í Kasmír, vatnssósa Súmötrubúum.

Af hverju?

Af sömu ástæðu og fólk í Evrópu og Bandaríkjunum vill vernda hvalina: það er svo vel auglýst.

Kaupið nýja diskinn með alþjóðasönglurunum, því prósenta af verðinu rennur til barna í útlöndum. Kaupið braurist áf tæknihöllinni, til styrktar deyjandi fólki í landi sem heitir nafni sem við getum ekki borið fram. Sjáið mynd af þeim, eru þau ekki ámátleg?

***

Nú byrja fréttir frá fréttastofu N-F-S. Sem er nokkuð asnalegt, því fréttastofan heitir "Nýja Frétta Stofan". Það sem þeir eru að segja er því: Nú byrja fréttir frá fréttastofu nýju fréttastofunnar. Asnalegt.

***

Ópíum, með öðru nafni, er það ekki samt Ópíum?

Sá um daginn hjá þeim, að þeir voru að fárast yfir því að rónar eiga svo auðvelt með að redda sér contalgíni. Hvað með það? Leyfið þeim að taka efnið, fyrst þeir eru svo áfjáðir í það. Seljum efnið hverjum sem vill í kílóavís.

Það þýðir lítið að banna efnið, því það er ekkert hægt að banna efnið. Það er löglegt en á sama tíma ólöglegt. Löglegt, því þetta er besta verkjalyf sem völ er á - þó viss takmörk séu til hvers má nota það - ólöglegt einungis þegar það berst af spítalanum og út á götu. Það sama gildir um amfetamín.

Ánægður dópisti er meinlaus dópisti. Eftir smá stund verður hann dauður dópisti. Annað hvort verður það of stór skammtur eða hjartaáfall sökum vannæringar. Það hefur verið vitað síðan í fornöld að allir sem taka morfín hætta að borða til að hafa meiri tíma til að taka morfín.

Það mun leysa margan vanda: dópistar eru flestir á bótum. Ef efnið er auðfáanlegt, og helst ódýrt, þá hrökkva bæturnar fyrir meira efni, sem þýðir að aumingjans mennirnir þurfa ekki að stela útvarpinu úr bílunum okkar til að selja fyrir efni.

Það sparar líka forvarnakostnað. Í staðinn fyrir að senda út gífurlegt magn bæklinga um áhrif hinna ýmsu lyfja, þá er bara hægt að rölta með alla krakkana niður á Hlemm til að skoða rónana.

Peningana sem sparast má meðal annars nota til að hjálpa þeim sem vilja hætta.

***

Flugvallarmálið:

Þetta er kallað meinloka. Einhver asni hefur bitið í sig einhverja hugmynd, og lætur ekki af henni sama hvað honum er bent á. Hér hefur einhver bitið í sig að flugvöllurinn í RKV sé eitthvert vandamál sem verði að hverfa.

Sem dæmi um vandann bendir hann á hvernig hann teppir umferð.

Flugvöllurinn teppir ekki umferð. Lélegt skipulag stór-Reykjavíkursvæðisins síðan AD 1800 teppir umferð. Þeir hefðu átt að skoða svolítið amerískar borgir. Þær eru flestar byggðar upp sem hnitakerfi, og þannig dreyfist umferðin miklu betur. Það þarf enginn að fara inná einhverja "stofnbraut" til að komast milli bæjarhluta. Það er ekið inn á hraðbrautir til að komast á milli fylkja.

Sem gulrót til að sauðskur almúginn fylgi, er bent á að þetta er dýrasta svæði landsins: 101 svæðið. Þarna væri hægt að reisa fullt af lágreistri byggð og kaffihús.

Allt í lagi. Leyfu þeim það. En á sama tíma mæli ég með að höfuðborgin verði flutt til Egilsstaða. Vonum bara að þeir hafi almennilegt skipulag á sínum enda svo við endum ekki með Borg Hryllingsins þar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli