fimmtudagur, desember 01, 2005

Dagur 268 ár 2 (dagur 633, færzla nr. 341):

Ég heyri alltaf öðru hvoru í fréttum eftir að einhver lendir í slysi þennan frasa: "Líðan hans er stöðug."

Og ég hugsa með mér: ef maður er dauður, er þá ekki líðan manns stöðug? Ekki sé ég fyrir mér hve mikið dauði getur sveiflast. Að vísu sá ég um daginn þessa kvikmynd þar sem dauðir ráfuðu um, festust í rúllustigum og margt annað skemmtilegt. Kannski var dauði þeirra ekki stöðugur.

Annað merkilegt röfl heyri ég reglulega: pólitískt þetta og pólitískt hitt.

Ég hef nú fylgst lengi með þessu, og mér hefur sýnst að pólitík þýði á íslensku: Það sem pólitíkusar segja sem miðar að því að bjánar kjósi þá svo þeir haldi völdum, og líka það sem þeir gera til þess að hygla undir kunningja og ættingja rétt eftir kosningar og/eða þegar aðrir taka ekki eftir.

Pólitík snýst ekki um neitt annað.

Samkvæmt því er almenn velferð ekki pólitík, en það er mjög pólitískt að tala um almenna velferð.
(sprengja)---*
Varnir gegn hryðjuverkum er annað sem ég fæ ekki skilið. Og með þessi varðskip sem þeir ætla að láta smíða, hvernig verða þau vörn gegn hryðjuverkum?

Mér er hugsað til atriðisins þarna í Simpsons, þar sem Lísa segir við Hómer: "ég gæti alveg eins sagt að þessi steinn haldi tígrisdýrum í burtu, því að ég sé engin tígrisdýr."

Það var fyrir einum mánuði eða tveimur, að manni var bannað að byggja bílskúr í garði sínum rétt hjá skrifstofum Fosseta líðveldisins, því af honum gæti stafað ógn, jafnvel hryðjuverkaógn.

Mig grunaði nú að þjóðarleiðtogar heims væru skynsamari en svo að þeir færu að príla uppá þak þessa merkis bílskúrs, en ráðamenn virðast halda annað.

Af tilefni hryðjuverkaógnarinnar hef ég falið sprengju í þessum texta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli