laugardagur, apríl 15, 2006

Dagur 38 ár 3 (dagur 768, færzla nr. 397):

Bússi kom í gær. Og í dag. Hann tilkynnti komu sína á sama hátt í bæði skiftin: reyndi að hringja dyrabjöllunni 200 sinnum á sekúndu. Gefur að skilja að það hafi ekki tekist, en, á móti kemur, enginn annar hamast á bjöllunni eins og hann. Mann gæti grunað að hann sé eitthvað taugaveiklaður. Ég þori að veðja að hann fær annað hjartaáfall innan 5 ára.

En, á móti kemur að hann er hættur að stinka upp húsið í hvert sinn sem hann kemur, sem mér finnst benda eindregið til þess að hann sé búinn að draga umtalsvert úr reykingunum. Og þar sem nikótín gerir fátt annað en að þrengja æðarnar, þá flæðir blóðið örar um á meðan ekki er reykt, sem veldur kannski því að okkar maður getur hreyft sig öllu hraðar en áður. Þ.e. hann getur hringt bjöllunni einu sinni oftar á sekúndu en hann gat áður.

Mér varð hugsað til íþróttaálfsins. Ég sá nefnilega þátt um kauða í sjónvarpinu í gær. Eða fyrradag, er ekki viss. Hvað um það, þessi öllu fjarskildari ættingi minn á nefnilega við sama vanda að etja og náskildari frændi minn: hann getur ekki setið kjur. Þó er einn munur á íþróttaálfinum og óhollustuálfinum... ég meina Bússa, að annar hefur aldrei reykt og virðist í þokkalegu líkamlegu ástandi, á meðan hinn... já, býr við önnur kjör.

Þeir eru báðir óþyrmilega strekktir, og mega því báðir búast við hjartaáfalli í framtíðinni, nema þeim takist á einhvern undraverðan hátt að slappa af.

Og þessir gaurar eru skildir mér. Mér. Ég á stundum í erfiðleikum með að halda mér vakandi, hvað þá meira. Og þarna eru einhverjir pjakkar sem æða sennilega um á handahlaupum allan sólarhringinn.

***

Í tilefni páskanna sýndi RÚV í gær kvikmyndina Spartakus. Sem var yfir 3 tímar að lengd. Full af effexum, þó ekki hafi verið búið að finna upp almennilegar tölvur þegar hún var gerð. Sem gerir effexana bara tilkomumeiri.

Í lokin voru allar helstu persónur krossfestar. Það var afar Páskalegt. Ég er enn að bíða eftir að þeir renni The Last temptation of Christ í gegn. Núna, anno domini 2006 er hún varla guðlast ennþá, líkt og hún hefur verið undanfarin 10 ár eða svo. Það endar á því að ég þarf að taka hana á leigu.

En svona eru Íslendingar nú miklir talibanar inn við beinið. Við erum ekki mjög trúað fólk, en samt eru innan við 10 ár síðan einhver var síðast kærður fyrir guðlast, og málinu var ekki bara vísað frá áður en það fór fyrir dómstóla.

Athyglisvert.

***

Mynd vikunnar.



Að vísu er mynd vikunnar ekki uppfærð í hverri viku. Hmm. Ímyndiði ykkur bara að þið lesið einn pistil á dag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli