Dagur 118 ár 3 (dagur 848, færzla nr. 425):
Það virðist sem loftsteinninn hafi ekki hitt jörðina. Hann hittir þá bara næst. Það verður eftir 10 ár, skilst mér.
Hinar sturluðu systur mínar þykjast enn vera í megrun. Þær segjast vera orðnar svo sílspikaðar að þær komast ekki inn um dyrnar án þess að nota skóhorn. Ég ætla ekki að mótmæla því, enda er eins og allir vita, varasamt að andmæla óðu fólki.
Þetta allt veldur því að þær eru í megrun. Ekkert gos, ekkert nammi nema á laugardögum og þeim dögum þegar það er til nammi og hinar systurnar sjá ekki til. Svo verða þær að borða heilsumat, en það er fæða sem er svo eitruð að fólk sem borðar hana hefur átt það til að leysast upp og hverfa að lokum í gufuskýi sem dreyfist um óravíddir himingeimsins í næstu vindkviðu.
Þetta væri ekki svo slæmt, ef þetta væri ekki farið að hafa slæmar afleiðingar á hvað er til í ísskápnum: ekkert kók, ekkert pepsí, ekkert appelsín. Svei.
Ég hef þó reynt að halda uppteknum hætti eins og ég get. Í vinnunni hef ég aðgang að kaffi, sem ég get dælt í eins miklum sykri og mér sýnist, og ég get notað eins mikla olíu eða smjör eða hvað sem er til að steikja eggjaköku.
Og ekki þyngist ég.
Systur mínar eru að mínu viti haldnar órum. Ég veit ekki hvaðan þær hafa fengið þessar hugmyndir. Ekki kennum við þeim þetta hér heima. Ég held að þetta sé allt vinkonum þeirra að kenna. Það ætti að flengja þær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli