Dagur 16 ár 4 (dagur 1111, færzla nr. 531):
Nú er að koma sumar, og þá fara að koma allskyns langar, dýrar og afar slæmar myndir í bíó. Margar þeirra eru gerðar af Bruckheimer og í þeim er Nicholas Cage. Fyrir þá sem ekki vita hver það er, þá er það gæjinn með langa andlitið sem var í "the Rock" og "Con Air" og mörgu öðru.
Reyndar hef ég skoðað þetta mál aðeins, og mér hefur sýnst að sá náungi sé í flestum sumarmyndum sem ganga eitthvað. Fáir vita til dæmis að Nicholas Cage var í bæði "ID 4" og "Pirates of the caribbean". Það vita það nefnilega fáir, en Keira Knightly er í raun bara karakter sem er leikinn af Nicholas Cage. Og í ID 4 lék hann dauða geimveru, enda er sú dauða geimvera lang-eftirmynnilegasti karakterinn í þeirri mynd.
En hvað um það. Ef það er svo, þá er örugg leið til að gera sumar-blokböster bara að láta Bruckheimer ráða Nicholas Cage, og gera svo kvikmynd með fullt af sprengingum og almennu kjaftæði.
Til dæmis Godzilla! Já, ég veit að það er búið að gera ameríska útgáfu af því. En ekki með Nicholas Cage, þess vegna var sú mynd líka hálfgert klúður. Þeir eiga náttúrlega að ráða gæjann sem leikur Godzilla venjulega, og koma svo með eitthvað orginal plott... með Nicholas Cage að sjálfsögðu.
Nicholas Cage vs. Godzilla!
Nicholas Cage stígur á land einhversstaðar, upp úr sjónum, og byrjar að sparka í nokkur háhýsi úr pappa og gifsi.
Godzilla er heima hjá sér, með bjór í hendinni að horfa á sjónvarpið.
Herinn reynir að ráða niðurlögum Nicholas Cage með ýmsum ráðum, til dæmis með því að skjóta á hann CGI eldflaugum, en þegar það dugir ekki þá hringja þeir í Godzilla.
Bardagi aldarinnar upphefst. Fullt af húsum hrynja. Sprengingar, læti, harðfiskur. Þið þekkið þetta. Svo kemur Súpermann inní þetta einhvernvegin, og alheimurinn springur í loft upp. Gott stöff, það.
Ég ætla að fara að gera eitthvað uppbyggilegt núna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli