miðvikudagur, desember 10, 2008

Dagur 281 ár 4 (dagur 1741, færzla nr. 742):

Þau skírðu krakkann hans Svenna áðan. Amma mætti í það partý. Hún segir að krakkinn heiti Jón.

Segir Amma.

Það þýðir að hann heitir Einar, eða Loðmundur eða Lech Walesa eða guð veit hvað. Þarf að spurja einhvern annan seinna.

Amma sagði mér um daginn að hún hefði áhyggjur af því að fólk gæti misskilið orðið Evra. Mér var starsýnt á ömmu þá.

"Það er talað um í efra," sagði hún, til útskýringar.

Ég benti ömmu á að fólk færi nú varla að villast á orðunum Evra og Efra, ef ekki fyrir stafsetninguna, þá fyrir samhengið.

Það borgar enginn með Ofar, er það?

Ég benti líka á að Efra er lýsingarorð en Evra nafnorð, sem ætti nú að vera hint, því orðin notast ekkert eins og beygjast ekki á sama hátt.

Amma er samt enn viss um að fjöldi fólks á hverjum degi villist á þessum tveimur orðum.

Amma hefur jafnvel kaldhæðnara viðhorf til fólks en ég. Það líður ekki sá dagur að amma heldur ekki einhverja þrumuræðu um þetta fólk, sem hefur ekki lengur efni á kindalæri (of hefur samkvæmt henni ekki haft síðan 1950), endurnýjar eldhúsinnréttinguna á hverju ári, kaupir sér jeppa með nuddpotti og sumarbústaði með flatskjá á hverjum vegg og ég veit ekki hvað og hvað.

Sem er sú súrrealískasta sýn á heiminn sem ég veit um. Sem er kannski við hæfi, því hún er jú einu sinni harðlínu-kommi sem býr í eigin húsnæði. Er að furða að hlutirnir meiki ekki sens?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli