laugardagur, desember 27, 2008

Dagur 298 ár 4 (dagur 1758, færzla nr. 747):

Annáll ársins, annar hluti:



Á árinu heimsóttu nokkrir ísbirnir landið. Við nánari athugun kom reyndar í ljós að margir þeirra voru kindur, snjósaflar eða fjúkandi bónuspokar - sem eru augljóslega gulir með mynd af bleiku svíni, en fólki fannst samt vissara að tilkynna um þá sem ísbirni, og jafnvel neita að fara út úr húsi fyrr en búið væri að skjóta þá og stoppa upp.

Mér datt í hug að þar væri gott tækifæri til að verða sér úti um svona míní-dýragarð. Það eru ekkert voða mörg dýr á vappi ofansjávar á heimskautinu. Ísbjörn er eitt af tveimur, hitt er hreindýr. Svo eru einhverjir refir og mýs og svoleiðis, en enginn nennir að gera sér far sérstaklega til að skoða svoleiðis.



Ég gerði mér í hugarlund að létt verk og löðurmannlegt væri að na einum svona birni lifandi. Til dæmis væri hægt að skjóta pílu með svefnlyfjum í hann. Hægt er að skítmixa svoleiðis á nó tæm. Einnig hefði verið hægt að veiða hann í net.

En nei, það er alþýðu landsins lífsins ómögulegt að gera eitthvað svo einfalt. Þótti þeim skemmtilegra að skjóta dýrin.



Ríkið þóttist geta náð einum birninum lifandi, og var fenginn til þess verks útlendur sérfræðingur.

Og hvaðan var sérfræðingurinn fenginn?

Var hringt í Kanadamenn, sem svæfa á hverjum degi 12 ísbirni og flytja með þyrlum þangað sem þeir angra engan?

Nei.

Var rætt við Norðmenn, sem hafa sumir hverjir séð ísbjörn?

Nei.

Það var haft samband við Dana, frá hinni suðrænu hitabeltisparadís Danmörku, þar sem tígrisdýr sveifla sér í pálmatrjánum og villisvín sóla sig í eyðimerkurhitanum.



Og Ríkið hélt líka að danir ættu þennan ísbjörn, enda gerði það víst ráð fyrir því að Húnavatnssýslan væri enn lén í Danmörku. Þess vegna stóð til að senda björninn í tívolí með þessum danska manni.

Þessi danski maður hafði aldrei séð ísbjörn, en var nokkuð viss um að slíkt dýr væri ekki ósvipað hinum dönsku kóala-björnum, nema aðeins ljósari.



Nú, danski pétur hafði með sér son sinn, og leyfði honum að búa til búr úr legó-kubbum til þess að setja ísbjörninn í þegar búið væri að sprauta ísbjörninn með vægum skammti af aspiríni til þess að róa hann lítillega, og taka hann svo niður úr pálmatrénu.

Svo, þegar á hólminn var komið, og sá danski sá að björninn var eitthvað aðeins stærri en húsköttur, og með tennur lengri en fingur manns, þá fölnaði hann allur, og flúði af hólmi á sundi.

Hann ætti að vera að nálgast Grænhöfðaeyjar núna.

Svo sá ísbjörn var líka skotinn.



Ríkinu er ekki treystandi til þess að fanga einn ísbjörn. Því er ekki einu sinni treystandi til þess að ráða mann til þess að fanga ísbjörn. Og af einhverjum undarlegum ástæðum setur Íslenska Ríkið hagsmuni Danmerkur framar Íslands.

ARRGH!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli