sunnudagur, mars 29, 2009

Dagur 25 ár 5 (dagur 1850, færzla nr. 778):

Nú sýnist mér Ísland vera orðið umsvifamesti frmaleiðandi Marijúana í heimi - jafnvel án þess að tekið sé tillit til höfðatölu. Það líður varla sá dagur að löggan rústi ekki einni verksmiðju, minnst.

Hugsum nú augnablik um þetta, svona praktískt: geriði ykkur grein fyrir hve miklu tjóni lögreglan er mögulega að valda á hagkerfinu?

Ég meina, það er ekki möguleiki að þetta sé allt á innanlandsmarkað. Sem þýðir að núna er Þjóðin sem heild að missa af afleiddum tekjum út af þessu. Já, jafnvel þó ræktunin sem slík sé kolólögleg, stunduð með stolnum græjum og hvaðeina, þá er samt 17% söluskattur á matvælum og 25% á öðru.

Gerum okkur nú grein fyrir að dópdílerar þurfa líka að borða, og sumir hverjir ganga um í fötum sem þeir hafa keypt í Hagkaupum, jafnvel. Sumir eiga bíl - meira en 50% af bensínkostnaði þeirra fer beint í Ríkið, að ég tali nú ekki um bifreiðagjöldin...

Ríkið var að stórgræða á þessu. Þetta var peningur beint í hagkerfið.

En nú...

Gefum okkur að þeir hafi grætt þessar 3000 krónur á grammið. Hvað framleiddi þessi síðasta mörg grömm? 15.000? Nenni ekki að stúdera það, en mig minnir það. Það gerir 45.000.000 krónur. Af því hefði líklega 30% farið inn í Ríkissjóð gegnum bara söluskatt og bensíngjald. Sem gerir 15.000.000. Bara af þessum eina bílskúr.

Höfum nú í huga eitt augnablik að þeir eru búnir að taka 24 svona skúra, hver hefur að öllum líkindum verið að gefa Ríkissjóði 10 milljónir, varlega áætlað, svona þrisvar á ári. Gefið að sjálfsögðu að einhver hafi keypt öll efnin, og innlendir dílerar hafi eytt 80% af peningunum hér heima.

Það gerir 240.000.000 milljónir, held ég. Þrisvar - fjórum sinnum á ári.

Þeir hefðu bara átt að líta í hina áttina, held ég.



Mynd fyrir ykkur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli