Dagur 180:
Ekkert gerðist í dag. Ekkert mér viðkomandi, það er að segja. Það sökk skúta, og það hrundi krani. En var ég á svæðinu? Nei.
Minnir mig á, einusinni, þegar heimins stærsti katamaran-bátur brotnaði í sundur hér fyrir sunnan einu sinni.
Þessi katamaran var smíðaður á Bretlandi, og samkvæmt fréttum, sem ég horfði á á sky, þá var þetta stærsti katamaran í heimi. Smíðaður úr trefjum, og með svona spöngum á milli, sem héldu uppi langri langri siglu, með einu stóru segli.
Katamaran eru mjög stöðugir bátar. Ekki mjög sterkir, en stöðugir.
Enda brotnaði þessi í sundur úti á miðju Atlantshafi, og flutu brotin um, en sum sukku.
Eitt brotið barst til eyja, og var dregið til hafnar. Langt langt stikki úr öðrum bolnum. Þegar það hafði legið við bryggju það lengi að það var farið að angra menn, var stykkið tekið upp, sagað í sundur, flutt í gryfjuna á vörubíl og urðað.
Ég fór og skoðaði brotin. Þau voru stór, stærri en meðal fólksbíll hvert. Svolítið brotið á þessu stefnið, enda búið að velkjast í hafi marga mánuði áður en það var dregið til hafnar.
Já. stórt stikki úr heimsins stærsta katamaran-bát liggur grafið í gryfjunni hérna í Heimaey. Það er eitthvað sem við getum öll verið stolt af.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli