Dagur 33 ár 4 (dagur 1128, færzla nr. 535):
Fyrst það var nú frí fór ég út á Reykjanes og skoðaði Wilson Muga. Dallurinn er lengst uppi í landi, við stofugluggann hjá liðinu þarna í Hvalsnesi. Mjög tilkomumikið að sjá, og mikil tilbreyting frá hinu venjulega útsýni þar: sjó.
En hey, þetta lið er mjög hrifið af sjó. Helst myndi það vilja horfa á ekkert annað, og reyndar er þetta sléttasti parturinn af Reykjanesinu, þarna er nákvæmlega ekkert svo langt sem augað eygir.
Mig grunar að þessu fólki sem þarna býr séu eigin hús mikill þyrnir í augum, þar sem þau standa uppúr auðninni, en óheppileg nauðsyn, því án þeirra gætu þau ekki notið sléttlendisins. Eða hvað það eiginlega er sem fær það til að heimta þennan dall í burtu.
Hvernig þeim tíkst að koma bátnum svona rækilega á land veit ég ekki. Það hlýtur að hafa verið háflæði þá. Þegar ég kom að þessu voru 10 metrar af stefninu á lofti, svo sá undir. Að aftan er bara 1/3 af skrúfunni á kafi. Merkilegt alveg.
Ef þetta skip væri látið í friði myndi það líklega brotna í sundur á innan við 10 árum, en samt yrði nóg eftir til að laða að sunnudagsrúntara. Þetta gæti orðið mikil lyftistöng fyrir hamborgarasjoppuna í Sandgerði. Þeir á Hvalsnesi gætu opnað kaffihús til að kapitalisera á þessu. Því með mynnismerki sem breytist stöðugt, þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá, alltaf sama fólkið úr Keflavík, hafnarfirði og Rkv að mæta að skoða hvað hefur breyst.
En... þeir munu draga bátinn út, þar sem hann mun sökkva.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli