sunnudagur, apríl 29, 2007

Dagur 52 ár 4 (dagur 1147, færzla nr. 543):

Ég var að velta fyrir mér hvað það kostar að byggja í Borg Óttans. Við gefum okkur að maður vilji byggja einbýlishús. Gott, þá þarf lóð. Borgarstjórn er ánægð að selja okkur eina á okurverði, eða 11 milljónir. Í eyjum er hægt að fá hús fyrir það. Hús á lóð. Og bíl. Í Ólafsfirði er hægt að fá götu með nokkrum húsum. Kannski líka bíl.

Nú, mér skilst á auglýsingum sem ég hef fengið frá bankanum, að ég geti fengið lán með 5% vöxtum.

Allt í lagi, 5% vextir af 11 millum er 550.000 á ári. Það gerir 45.900 kall á mánuði, bara vextirnir. Segjum sléttar 50.000, og þá borgast höfuðstóllinn upp á... 183 árum. Eða aldrei, semsagt. Svo við þurfum að borga 60K á mánuði minnst, bara til að eiga lóð, og búa í tjaldi á henni. En sniðugt.

Launin sem maður þarf að vera á þá eru: 60K fyrir lóð, eða 720K á ári, 200 fyrir bíl, eða 60 fyrir strætó (og mæta þá kvefaður og of seint í vinnuna - OG heim!), 20-50K fyrir mat, og hvað meira? Áttu börn? 2000 kall á dag, stykkið. Sleppum þeim, ég held ég eignist engin svoleiðis hvort eð er.

Talan er: 800-970K á ári fyrir barnlausan einstaking í tjaldi. Þá verður viðkomandi að þéna 67-81K á mánuði eftir skatt til að standa á sléttu. Sem er bara ekkert gaman. Það er alveg hægt, en þetta er bara lóð, munið?

Og ef þú vilt hús ofaná lóðina?

Hvað kostar hús? 50 fermetra kofi er svona 4-5 millur, 185 fm hús er á um 10-11 (sjá link - snjóhús, hin gerpin eru ekki með verðlista.). Þá þarf að punga út öðrum 60 K á á mánuði, sýnist mér.

Sko: raunsætt verð fyrir almennilegt hús (sem manni verður svo bannað að smíða því þakið á því lekur ekki, eða það er ekki nógu ljótt og fellur því ekki inn í götumyndina, eða einhverjum hjá borginni er illa við þig því þú ert ekki í flokknum, eða hefur engar vörtur á nefinu eða eitthvað) er svona 15 milljónir, tilbúið til búsetu.

11+15= 26, sem þýðir 109K á mánuði bara í vexti. Þetta verða líklegast 150.000 á mánuði þá. ARG!

Og launin sem maður þarf þá að hafa eru: 150 á mánuði í húsnæði, eða 1800K plús 240-600 í mat og 200 í bíl á ári = 2.1 - 2.6 millur á ári = 175 - 220 á mánuði, eftir skatt.

Sko, í álverinu fær maður alveg 175K á mánuði, en hey! Fær maður aldrei að fara í frí? Aldrei bíó, aldrei neitt. Og ef þú átt krakka... suss. Þú munt fara á hausinn. Nema þú farir að vinna í KB banka sem einhvert númer.

Það var líka að renna upp fyrir mér að maður verður að vera á eldgömlum bíl, og húsgögnin verða að vera gefins/stolin.

Það er engin furða að fólk búi frekar í Hafnarfirði, Garðabæ eða í Keflavík. Það svarar kostnaði að keyra. Þá gefst líka meiri tími til að hlusta á Motorhed...

(við skulum svo gera okkur grein fyrir því að þetta stendur og fellur með því að maður geti fengið lán með 5% vöxtum. Gangi ykkur vel með það.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli