föstudagur, júlí 20, 2007

Dagur 135 ár 4 (dagur 1230, færzla nr. 567):

Hvað á að gera við Þingvelli? Ég veit að það eru aðilar þarna sem vilja höggva niður öll jólatréin sem eru þar - ekki í þeim göfuga tilgangi að kolefnis-ójafna bílana sína - heldur til að koma Þingvöllum í það ástand sem þeir voru í á Þjóðveldisöld. Þegar þeir voru í notkun.

Hugmyndir Össurar og slökkvimannsins um að rífa Valhöll falla vel að þeirri hugmynd, en það eru áhveðin vandamál á þessari hugmynd sem mér finnst rétt að reifa stuttlega:

Á Þjóðveldisöld voru engir sumarbústaðir á Þingvöllum. Það er staðreynd. Ekki man ég til þess, svona svo dæmi sé tekið, að Þorgeir Ljósvetningagoði hefði skroppið upp í bústað til að lyggja undir feldi og slappa af. Né heldur var Auður Djúpúðga þar í sólbaði né var Gísli Súrsson þar að grilla pylsur.

Svo bústaðirnir verða að fara.

Vegurinn niður í gjána var ekki settur upp fyrr en eftir móðuharðindi. Svo augljóst er að hann verður að fara. Vegna þess að móðuharðindin fóru fram eftir að þjóðveldistímanum var lokið. Amma man vel eftir þessu. Segir að þá hafi tímarnir verið betri.

Reyndar þurfa allir vegir um svæðið að fara. Ég veit að einn af Ynglingum var uppnefndur braut-Önundur, því hann var svo mikið fyrir vegagerð, en hann kom ekkert hingað, svo hér voru engir vegir, bara slóðar eftir rollur, og kannski nokkrar hetjur í litklæðum.

En allt þetta smá fiff fölnar í samanburðinum við aðal vandamálið:

Sko, meira en helmingurinn af hinum eiginlegu Þingvöllum, eins og þeir voru á þjóðveldisöld, eru núna staðsettir ofaní Þingvallavatni. Nei, ég er ekki að búa þetta til. Það kom gífurlegur jarðskjálfti einhverntíman um 1800 (+- 50 ár), og þá sökk hellingur af landi - allt draslið seig um 1-2 metra, og fór á kaf í vatn. Ég giska að það hafi lítillega teygst á landinu við þetta líka.

Ekki veit ég hvernig þeir ætla að fara að því að laga þetta.

Þessi tré eru nefnilega minnsta málið. Þau eru reyndar bara hluti af sögu svæðisins, og að ætla að fjarlægja þau væri að falsa söguna. Það væri svona svipað eins og ef grikkir endurbyggðu Meyjarhofið, eða Egyptar endurbyggðu Pýramídana. Eða Enzo Ferrari sæist aka um á Ferrari kit-bíl með fólkswagen undirvagni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli