þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Dagur 368 ár 4 (dagur 1452, færzla nr. 656):

Ég held að það að vera gamall sé eins og að vera á barnum, alltaf. Hugsið aðeins út í þetta:

Þegar þú ferð á barinn, þá er þar spiluð tónlist svo hátt að maður heyrir ekki sjálfan sig hugsa. Svo drekkur maður drykki sem mann svimar af, og verður kannski bumbult líka. Venjulegt samtal einkennist af: "Ha?" og einhverjum misskilningi, og kannski rifrildi því fólk verður svo vitlaust þegar það er við drykkju - sem er í flestum tilfellum ekki á bætandi.

Berum þetta saman við að vera gamall: þá horfir þú á sjónvarpið svo hátt stillt að glymur í esjunni - og það þótt maður sé staddur á Akureyri þá. Svo svimar mann og maður riðar til (þetta gerir amma allavegana). Og öll venjuleg samtöl einkennast af "Ha?" - þetta á við hvort sem viðmælandinn er ungur eða gamall, því það gleymist alltaf að lækka í sjónvarpinu. Svo kemur venjulega upp misskilningur - hér verða hlutirnir verulega súrrealískir.

Þannig að ég held ekki að fólk sem stundar barina grimmt verði neitt sérlega vart við það þegar það verður gamalt. Að öðru leiti en því að allt í eiu þarf það ekkert að drekka til að riða um. Það hefur hvort eð er ekki raunverulega talað við neinn alla ævi, heyrt nokkurn skapaðan hlut fyrir hávaða eða séð neitt markvert fyrri myrkri - gláka mun taka við af því seinna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli