föstudagur, febrúar 08, 2008

Dagur 350 ár 4 (dagur 1434, færzla nr. 649):

Amma komin með kvef. Það er víst verra á hennar aldri.

Jæja...

***

Það voru kosningavökur í gær. Ég fór og leit á þær. Vaka Vöku var frekar slöpp. Hún var ámóta góð og að vera fastur ofaní ræsi í hálftíma. Svo ég fór og kíkti á vöku Röskvu.

En fyrst fór ég að elta dularfullan hóp fólks sem ég sá hlaupa framhjá með skilti. Þau reyndust vera að pranga út heitu kakó. 20 manns, seljandi heitt kakó í snjóstormi. Undarlegt.

Svo ég kíkti á Röskvu. Við dyrnar var rukkað um 500 kall, og þar sem ég er ekki svo hneigður til öls að ég sé til í að borga fyrir að fá að kaupa bjór, þá lét ég það alveg eiga sig.

Þetta fær mig samt til að ryfja upp hvernig vökurnar hafa verið hingað til: vaka Vöku var nefnilega umtalsvert betri en þær sem ég hef orðið vitni að áður. Til dæmis var vakan seinast nákvæmlega jafnskemmtileg og að láta bora í báðar hnéskeljarnar á sér.

Vakan þar áður var verri.

Vökur Röskvu á sama tíma voru strax miklu betri. Þær voru sambærilegar við að vera fastur ofaní ræsi með nokkrum rottum, sem sagt. Sem er skárra en vaka Vöku.

Hámark þeirra kosningavaka sem ég hef mætt á allan þann tíma sem ég hef verið í háskóla er þegar ég ældi út í horn fyrir utan Stúdentakjallarann einhverntíma fyrir löngu. Það var alveg stórskemmtilegt, samanborið við allt annað sem gekk á þá.

Þynnkan daginn eftir hefur í öllum tilfellum verið ánægjulegri en þessar vökur.

Svo vann Röskva kosningarnar, með 6 atkvæða mun. Jæja. Sagan segir að partýin þeirra séu betri. Minna kvalafull, sem sagt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli