sunnudagur, september 28, 2008

Dagur 208 ár 4 (dagur 1668, færzla nr. 720):

Haukur Sveinsson, afi, mun hafa átt afmæli í dag, segir amma. Hefði orðið 91 árs, skilst mér. Ef hann hefði ekki sífellt borðað upp úr sykurkarinu, og setið kyrr.

Og hann gat sko aldeilis setið kyrr.

Hann ræktaði tréin sem eru umhverfis Húsgagnahöllina. Og hann átti beinvaxnasta tré á landinu. Þeir eru að klóna það hjá einhverju batteríi. Eru komnir með nokkur eintök núna. Man ekki hvaða tegund af tréi það er. Ég þekki ekkert tré í sundur - bara jólatré frá pálmatrjám og hinsvegin trjám. Þessum með svona venjulegum laufum.

Hans kynslóð hélst heldur illa á tönnunum. Hvernig ætli mín kynslóð verði? Vel tennt? Eða sjá gosdrykkir, og seinna ávaxtadrykkir um að leysa þær upp? Ég hitti Bjarka Tý hérna fyrir sumar, og það voru ansi brunnar í honum framtennurnar.

Það er ekkert víst að tennurnar tolli uppi í fólki - en það eru til ansi flottar aðferðir til að koma fyrir nýjum tönnum eftir því sem orginal tennurnar detta úr, svo það er ekkert víst að það sjáist. (Að því gefnu að fólk neyti ekki tóbaks eftir þá aðgerð.)

Það eru svo margir byrjaðir í neftóbakinu núna - sama sulli og gamli kallinn notaði. Setti hálfan baukinn á handarbakið og saug helminginn af því í aðra nösina, hitt fór hingað og þangað.

Enginn sem ég þekki eða hef séð til gerir svoleiðis.

Mér þótti það frekar ógeðslegt. Það má sennilega þakka honum Hauki Sveins fyrir að ég tek ekki þátt í þeirri neyzlu.



Tré.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli