Dagur 185 ár 3 (dagur 915, færzla nr. 448):
Ég hef verið að tala svolítið við ömmu undanfarið. Amma heldur enn að allt sé að fara fjandans til, eins og venjulega. Já. Í þá gömlu góðu daga, segir amma, unnu menn myrkranna á milli. Sváfu jafnvel ekkert heilu vikurnar. Já. Þá unnu 15-20 manns á litlum togurum, og vöktu stanzlaust þennan tíma sem þaeir voru úti - sem gat verið allt að vika.
Nú til dags nennir enginn að vinna. 2 menn á hraðbát veiða núorðið meira en 20 kallar á togara, og þeir eru svo ósvífnir að sofa á milli daga. Amma er ekkert hrifin af að heyra að svoleiðis skandölum. Þessi ungdómur nú til dags kann ekkert til verka, segir hún. Letingjar, alltsaman bara.
Hún hefur líka látið einhvern laga klukkuna sína, sem ég hafði mikið fyrir að skemma hér um árið. Ég gat nefnilega ekki þaggað niður í henni með góðu, svo ég notaði skæri til þess. Þetta var að trufla fyrir mér fréttatímann. Ég hlusta nefnilega nógu mikið á fréttirnar til að átta mig á að flest sem þar er sagt er ekki í mjög miklu samhengi vil sjálft sig.
Þetta mál með krakkana þarna. Þeir voru skilgreindir sem túristar á Ísafyrði. Í næsta bæ þá þekktu allir alla, og þar var krökkunum hleypt inn þó þeir hefðu engar kennitölur. Á Ísafyrða var hinsvegar í gangi einhver grámennska, og farið í ítrasta eftir lagabókstafnum.
Í gær voru þau búin að sjá að sér, og hafa klórað yfir eigin grámennskutilþrif með því að ljúga því að okkur að þau hafi bara verið að vekja athygli á sér. En ef enginn hefði vaðið með þetta í fjölmiðla, hvað þá?
Svo fannst mér líka gott þegar rætt var við alþingismenn á eftir, og þeim fannst báðum mjög sniðugt að glæpir hefðu verið framdir úti um allt land, og nú einnig á Ísafyrði.
Ég bara spyr, er ekki einmitt glæpur að fara ekki að lögum?
Að vísu voru þetta nú alþingismenn, og sú stétt hefur nú verið þekkt fyrir ýmislegt annað en að fara að lögum. (Grænar baunir, nokkrir rúmmetrar af brennivíni, lundaveiði... osfrv)
Nú, ef það er mjög göfugt í sumum tilfellum að fara ekki að lögum, í hvaða tilfellum er þá ekki göfugt að fara að lögum?
T.d smygl. Það er ekki mjög mikil illska þar að baki, heldur er verið að svara þörf sem Ríkið hefur eitthvað á móti. Eins og þarna í fréttum, þar sem Ríkið hefur eitthvað á móti því að fólk án kennitölu gangi í skóla.
Hvað er svo slæmt við að selja manni sem vill kaupa? Ég veit ekki. Svo er til 2 konar smygl: smygl á löglegum vörum og ólöglegum. Ólöglegur er sá varningur sem ríkið hefur að handahófi ákveðið að skuli vera ólöglegur. T.D er morfín löglegt, nema það sé flutt inn af þér með handfarangri.
Í sumum löndum er sjálfsmorð ólögleg. Á einum stað veit ég, eru þau ólögleg að viðlagðri dauðarefsingu. Sem fær mig til að hugsa: ef þú fremur sjálfsmorð, og viðurkennir það með bréfi, er þá líkið sett í rafmagnsstólinn áður en það er smurt og lagt til grafar?
Þetta Ísafjarðarmál er athyglisvert. Það er athyglisvert, því það sýnir að ríkið er Ofur-hægvirkt. Það er ekki eins og það eigi að taka nema 5-10 mínútur að skella saman einni kennitölu og redda pappírunum. Þetta á ekki að taka lengri tíma en að taka á móti pakka á flugvellinum í vestmannaeyjum. Af hverju tekur þetta þá mánuði?
Það er eins með þennan krakka þarna, sem heitir svo löngu nafni að Ríkið kannast ekki við hann. Það er einfalt forritunarmál. Bara að fá einhvern gæja til að breyta forritinu lítillega. Það á ekki að taka of langan tíma. Kannski dag. Eftir það geta krakkar heitið endalausum nöfnum ef svo ber undir.
En hey! Alþingismenn hafa lagt blessun sína yfir það að enginn fari eftir þessu, svo ég býst ekki við að nokkur þurfi kennitölu úr þessu. Gísli Óskars verður glaður að heyra það.
En á móti, ef kennitölulaust fólk kemst hér í skóla, getur þá ekki hver sem er komið hingað og hlotið ókeypis barnaskólamenntun? Þetta þarf að athuga... Einhversstaðar annarsstaðar en á vestfjörðum þar sem allir þekkja alla.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli