Dagur 206 ár 3 (dagur 936, færzla nr. 455):
Ég var að spá í, hvernig hægt væri að gera plebbavagninn Toyota Landcruiser að eigulegum bíl. Það er í þessu 4.7 lítra V-8 (nema þú viljir borga 200 kall á 5 ára fresti vegna þess að heddið gefur sig eftir snatt innanbæjar) sem á að afkasta 238 hestöflum - skv vef Toyota.
238 hestar, ekki slæmt, myndu sumir segja - en bíðið nú við - eigin þyng bílsins er 2.3 tonn. Minn bíll hefur fleiri hestöfl á kíló en það, sem skilar sér í meiri hröðun, og ef eitthvað er að marka tölurnar þarna þá erum við að tala um betri eyðzlu líka, eða 17 á hundraðið í mínum Cherokee versus 21 á hundraðið hjá Toyotunni.
Höfum í huga að minn bíll er 18 ára gamall, og í honum er vél sem er hönnun síðan 1970, og kemur úr Rambler, en mótorinn í Landcruiser er tiltölulega ný hönnun, með tvöföldum yfirlyggjandi knastás og allskyns svoleiðis kjaftæði. Það sem ég meina: hann á að eyða minna, svona 18 á hundraðið. Sama afl, sama þyngd.
Hvað um það.
Til þess að Landcruiser 100 geti svo performað almennilega, eins og svona bílar eiga að gera, þá er um að gera að létta hann bara. Það er til dæmis í þessu meira en 100 kíló af hljóðeinangrun. Það þarf ekkert svona mikla hljóðeinangrun. Með því að fjarlægja bara það yfirgengilegasta losnar maður við meira en 50 kíló. Svo eru þessar auka hurðir. Hver þarf þær? Ég sé sjaldan nema einn gæja í einu á svona bíl, svo ekki þurfum við þessar hurðir. Á móti má stækka þær dyr sem eftir eru. Með þessu sparast örugglega meira en 50 kíló, því svona hurðir eru djöfull þungar, segjum 60 kíló á hurð eða 120 kíló. Með því að fjarlægja hurðirnar skapast líka aukið rými afturí, svo það má að ósekju stytta bílinn um fet, og minnka aftursætið umtalsvert, eða jafnvel fjarlægja það alveg. Það situr hvort eð er aldrei neinn í því. Þar fara önnur 50-60 kíló.
Þá hefur Landcrúserinn okkar lést um meira en 250 kíló. En meira þarf að fara. Í öllum bílum nú til dags er fullt af allskyns ónauðsynlegu drasli, sem flest er sett í mælaborðið og þetta risastóra millistykki þarna á gólfinu. Þið vitið, þetta sem fæturnir nuddast í þegar maður situr undir stýri. Það má allt að ósekju fara. Allt nema hitastillingarfítusinn og útvarpið. Allt annað er bara skart, takkar fyrir vitleysinga til að ýta á á meðan þeir eru á ljósum.
En mesta ruglið er samt að þessi bíll er byggður á grind. Af hverju? Chrysler hætti því snemma - 193eitthvað. Það var engin grind í Chrysler Airflow, og ekki datt sá bíll neitt í sundur fyrir það. Imperial voru risa kaggar, og þekktir fyrir að þola meira beating en aðrir bílar, og ekki voru þeir á grind.
Svo ég segi kjaftæði, Landcruiser þarf enga grind. Þar fara örugglega 250-300 kíló. Þá er búið að strippa 450-500 kíló af bílnum og stytta hann um fet. Þá ætti hann að vera kominn niður í svona 18-1900 kíló, sem er svona svipað og Blazer jeppi, eða gamall Bronco. Og þá ætti þessi 4.7 lítra vél ekki að eiga í neinum vandræðum með að ýta hlassinu áfram, svo eyðzlan fer niður fyrir 20 á hundraðið og snerpan eykst úr mánuði í hundraðið í svona viku.
Flott mál. Einnig batnar hann svolítið í útliti, sem ég mun nú sýna frammá:
A: fyrir endurbætur.
B: eftir endurbætur.
Það sér það hver maður að þetta er miklu betra svona.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli