miðvikudagur, september 13, 2006

Dagur 189 ár 3 (dagur 919, færzla nr. 449):

Og þá er ég kominn aftur í vinnu. Mjög athyglisverður vinnutími að vanda. Ég mæti þegar einhver annar mætir ekki, svo ég geri ráð fyrir að vinna meira en áður. Óttalegir letingjar þessir Reykvíkingar. Hefði ég orðið svona ef ég hefði aldrei flutt? Eða er það bara ég?

Kannski.

Allavega, var að ryfja upp þessa bíla sem við vorum að sendast á áður en þeir keyptu auka kangoo bíla.



Renault Megane. Þetta voru mjög þægilegir bílar. Allt var staðsett á afar þægilegum stöðum, sætin voru mjúk, svo góð að maður vildi helst ekki standa upp. Allt var svo vel af sér vikið að það var til fyrirmyndar.

Nú, þetta hefði allt saman verið hinn fullkomni bíll ef þeir hefðu sett vél í hann líka. Eins og staðan var, þá þurfti maður að bíða eftir sterkum vindi til að komast áfram. Ég held það hafi verið hamstur á hjóli undir húddinu eða eitthvað.



VW Golf. Allt í lagi. Þetta er góður bíll þegar hann er kominn af stað. Að koma honum af stað er annað mál. Ég veit ekki hvernig þessir þjóðverjar aka, en ef þessi bíll er einhver vísbending, þá standa þeir þá flata. Það þarf allavega að vera með þungan fót til að það slokkni ekki á þessu þegar maður tekur af stað.

Mjög sniðugt útvarp. Það slokknar ekki á því fyrr en maður tekur lykilinn úr.

Það var allur fjandinn að þeim Golf sem við vorum með: afturhlerinn var lélegur, svo bilaði hann og þá var ekki hægt að nota skottið. Svo datt framsætið úr... og það voru alltaf einhver grunsamleg hljóð í honum þegar honum var ekið. Eftir ekki meiri akstur en 120K, þá hefði ég ekki búist við þessu öllu. 250K, kannski, en ekki við 120.



MMC Lancer. Það var sko fínn bíll. Hann hafði allt: útsýni, stjórntæki sem rekast ekki í hnén á mér, nægan kraft, nóg torque til að drepast ekki við að ég æki af stað. Að vísu var þessi spoiler svolítið fyrir mér. Hann hefði mátt fara. Þetta var ekki rall. Svo hefði mér þótt ágætt að fá sætin úr renaultinum.



Corolla. Jamm. Þetta þekkja allir. Þetta er svona generic brand bíll. Sá sem við höfðum var ekki vinsæll, því það var eitthvað að skiftingunni í honum. Hvort bakkgírinn var eitthvað lélegur eða eitthvað svoleiðis.

Það er heldur ekkert útsýni útum afturgluggann. Ég vandist því að geta séð betur útum afturgluggann en framgluggann þegar ég átti Dodge Aries hér um árið. Þessi... þeir hefðu alveg eins geta sleppt því að hafa glugga þarna. Þetta var alveg glatað. Að öðru leyti var þetta mjög ó-eftirmynnilegur bíll.



Hi-Ace. Með 2.4 lítra díesel, þá er þetta ágætis bíll til að keyra af stað: algjörlega andstæðan við Golf. Maður bara setur í 1 og sleppir kúplingunni. Þá hreyfist bíllinn. Jibbí.

Þetta eru mjög hastir bílar. Sem þýðir að maður keyrir ekki yfir hraðahindranir, maður keyrir á þær. Og það er enginn beygjuradíus á þessu. Bíllinn gæti allt eins verið á teinum. Það þurfti stundum að bakka til að ná 90° beygjum. Ekki mjög gott.



Ford Transit. Þetta er í raun það sama og Hi-Ace, nema það er almennilegur beygjuradíus. Og betri fjöðrun. Miklu grófari bíll, í raun alger traktor, en samt í alla staði þægilegri og betur til þess fallinn að þvælast með hluti. Í Hi-Ace hefði verið gott að aka umhverfis landið, en hann var hið versta mál innanbæjar. Þessi er alveg öfugt: ég myndi ekki vilja fara langt á þessu, en þetta er fínn snattari.



Og þetta er Kangó. Léttir, dósarlegir bílar sem er nokkuð gott að keyra svona miðað við sumt. Ég hefði þegið betri sæti, en hey, þetta er ódýrasti bíll á landinu - þ.e. ef um er að ræða vsk bíl.

Veghljóðið er ærandi. Mig grunar að þetta hafi aldrei verið ætlað til utanbæjaraksturs. Og svo er í þessu svona lítill fítus áfastur stýrinu, það sem hægt er að stjórna útvarpinu án þess að teygja sig. Sniðugt.

Ekki slæmt. Ekki eitthvað sem maður vill keyra daglega, en ekki slæmt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli