fimmtudagur, desember 06, 2007

Dagur 286 ár 4 (dagur 1370, færzla nr. 625):

Þessi náungi er núna uppáhaldslistamaðurinn minn. Hvers vegna? Jú, hann hefur nú framkvæmt gjörning sem hefur haft meiri áhrif en bara að láta almenning í þessu eina landi, og bara þann part af almenningnum sem veit af sýningunni á safninu, halda að það sé verið að hafa þá að fífli.

Neibb. Hann hafði þá að fífli í staðinn. Þeir þurfa ekki að halda neitt um það. Og ég fatta þetta, og ég get bent á heila þjóð og hlegið að þeim. Voru þeir hræddir við ÞETTA?

En hvað gerir maðurinn næst? Hvað toppar þetta? Ja, hann má búast við 4 ára fangelsi fyrir þetta, svo næst gæti hann til dæmis´búið til eftirlýkingu af Hiroshima bombunni, og skrifað á hana: "þetta er ekki kjarnorkusprengja", fyrir það fær hann minnst 10 ára dóm, svo þegar hann sleppur úr djeilinu getur hann sett upp dularfullt verk sem hann getur kallað: "þetta er ekki dómsdagsvél," og verið dæmdur í ævilangt fangelsi.

Já. Miðað við viðbrögðin við þessu hjá honum, mun fólk byrja að deyja í stórum stíl, bæði af hjartabilunum og sjálfsmorðum, af ótta við hina ógnvænlegu dómsdagsvél. Sem væri náttúrlega bara töff.

Þetta ameríkulið... Búið að tapa fyrir ímynduðum hryðjuverkamönnum.

***

Hvaða þörf er þetta hjá fólki við að vera hrætt við allan fjandann annars? Til dæmir miðborg RKV? Nú hef ég heyrt í mörgum íbúum 101-107, og enginn þeirra virðist óttast borgina, sama hvaða tími sólarhrings er. Það er jafnvel best að vera á ferli á nóttunni, þá fær maður að vera í friði, og getur gengið yfir götur án þess að flautað sé á mann.

Hinsvegar er fullt af fólki skíthrætt við RKV, og sérstaklega þeir sem aldrei koma þangað - svo ég nefni dæmi, þá eru vistmenn á elliheimilinu á Egilsstöðum þeir á landinu sem eru hræddastir við að vera einir á ferð í miðbæ RKV. Það var reynt að sannreyna þetta með því að spyrja fólk í Kína, en það var fallið frá því þegar tíundi kínverjinn í röð fölnaði upp, varð gráhærður og dó með það sama þegar orðasambandið "Miðbær Reykjavíkur" var nefnt.

***

Hef verið að heyra auglýsingu undanfarið þar sem mér er tilkynnt að visst fyrirtæki niðri í bæ eigi "mikið úrval í jólaseríum". Úrval af hverju eru þeir með í þessum jólaseríum? Ekki getur það verið umfangsmikið, fyrst það kemst fyrir inni í jólaseríu.

Sko, þegar maður er að auglýsa eitthvað, á maður að segja hvað það er. Til dæmis: "við eigum mikið úrval af gullfiskum í jólaseríum".

Úrval í jólaseríum? Kannski eru þeir að meina tímaritið úrval? Er það ekki hætt fyrir löngu? Ég hef ekki séð það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli