mánudagur, desember 31, 2007

Dagur 311 ár 4 (dagur 1395, færzla nr. 635):

Þá er árið að fara að klárast, og tími til að skoða hvað af spádómum mínum síðan í janúar hafa gengið eftir:

Ég verð illa svikinn ef Fidel Castro hrekkur ekki uppaf í ár.

Ég er illa svikinn. Árið skuldar mér afsökun.

það verða kosningar. Þær munu fara svona: D fær 40%, S fær 25%, VG fær 10%, F fær 7-8%, B fær 10%

VG fékk 14%, en að öðru leiti var þetta rétt hjá mér. En, að spá um úrslit kosninga á íslandi er svona eins og að spá því að nóttin verði dimm á eftir.

Það verður jarðskjálfti í Kalíforníu aftur.

Það urðu alveg jarðskjálftar, en ekki í Kalíforníu.

það heldur áfram að vera ólga í mið-austurlöndum,

Right on.

fólk í fréttum mun halda áfram að vera illa máli farnir vitleysingar.

... og horfir ekki til bóta á næsta ári.

Greiningadeild ríkislögreglustjóra mun ítrekað verða sér til skammar á komandi árum, en mun ekki verða lögð niður fyrir vikið.

Hvað gerir greiningardeildin annars? Ekki voru það þeir sem leyfðu öllum þessum bófum að rápa inn og út úr landinu? Eða hvað...?

Lögreglan verður verr og verr liðin eftir því sem hún sekkur dýpra í fasisma, en eftir því sem hún sekkur dýpra í það fen nær hún fleyri dópdílerum og neytendum, svo og öðrum aðilum sem ekki töldust glæpamenn í fyrra en eru það nú.

Samkvæmt fréttum stemmir þetta hjá mér. Og ekki bara það, heldur er hér á ferðinni fullkomlega endurnýtanlegur spádómur. Hann verður alltaf sannur.

Ríkið mun klúðra einhverju.

Það er það sem Ríki gera. Hugsið ykkur, ef ekki væri fyrir Ríkið, myndi svo fátt klúðrast að til hagsbóta horfði. Við getum ekki haft það.

Gæjinn sem rann á bananahýði og kveikti því óvart í á 11 stöðum í eyjum fyrir algjöra slysni og óvitahátt næst, en verður sleppt aftur að lokinni yfirheyrzlu. Þá rennur hann til í hálku og kveikir óvart og fyrir einbera slysni í á tveimur stöðum í viðbót.

Það var einhver tekinn til yfirheyrzlu. Ég tjái mig ekkert um það, vitandi ekkert um það mál.


Færri munu deyja í umferðinni í ár, en til að vega upp á móti því munu fleyri slasast, því vegna hraðatakmarkana munu gangandi vegfarendur gera sig heimakomna úti á miðri götu í meira mæli en áður.


Satt og rétt, sýnist mér.


Það fer að gjósa einhversstaðar. Ég er viss um það. Í Heklu eða einhversstaðar. Það hefur ekki komið gos svo lengi.


Ég er enn að bíða. Landið hefur um 8 tíma til að láta það rætast.

Ég er nú enginn Nostradamus. Af 11 ágiskunum... ég meina spádómum, þá hafa 5 nokkuð ljóslega gengið eftir, ég er ekki svo viss um 2, og allt hitt hefur svikist undan eftirgengni.

Gengur bara betur næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli