Dagur 297 ár 4 (dagur 1381, færzla nr. 630):
Ég ætla að kalla þessa mynd: "Úrval í Ljósaperum."
Þessi mynd er innblásin af auglýsingum sem ég hef heyrt í útvarpinu. Það virðist nefnilega vera, að til að gera auglýsingu, þá þarf maður ekki að hafa klárað barnaskólann.
Ég nefni dæmi: "Við höfum mikið úrval í jólaseríum," "hér er mikið úrval í tónlist," osfrv.
Sko, það er mikið úrval í kjötborðinu í Nóatúni, það er úrval í Húsgagnahöllinni, og það er úrval í Bónus. Ég get hinsvegar sagt með fullvissu að það er EKKERT úrval í ljósaperum, fyrir utan þessar sem ég hef mynd af hér að ofan.
Málið er, að á íslensku; hinu framandi og dularfulla tungumáli sem fjölmiðlafólk kann ekki; þá er úrval AF jólaseríum Í þessari og hinni búðinni. Það er úrval af kjöti í Nóatúni, það er úrval af tónlist þarna og á hinum staðnum, og það er úrval af húsgögnum í húsgagnahöllinni.
Það er ekki úrval í kjötinu. Að minnsta kosti ekki mínu kjöti. Og síðasta hefti af Úrvali sem ég sá var frá því 198X, sem myndi ekki gera steikina mjög listaukandi. Það er lágmarkskrafa að það sé nýtt Úrval, sem annar hver maður á landinu er ekki búinn að blaða í.
Úrval í jólaseríum... *grml*
Við hverju er svosem að búast af fólki sem getur ekki talað í 2 mínútur án þess að segja að eitthvað sé varðandi eitthvað annað?
Hvernig verður tungumálið í framtíðinni?
"Þetta er Máni Snær, varðandi nafn, hann er 14 hvað varðar aldur varðandi ár og er í námi varðandi skóla hvað varðar 8. hvað varðar bekk."
Hljómar vel, ekki satt?
Þetta lið segir kannski líka "Ég hlaupti," og "mér langar?"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli