laugardagur, janúar 05, 2008

Dagur 316 ár 4 (dagur 1400, færzla nr. 637):



.50 BMG, .338 Lapua, .308 & .223 NATO.



.338 riffill; accuracy international - enskt apparat. Fínn á hreindýr, seli... kanínur og slíkt. Nákvæmur upp að 1500 metrum, segja þeir. Sennilega í logni.

Hvað um það.

Það er búið að vera fullt af allskyns rusli í sjónvarpinu. Og ef það er eitthvað gott, þá er fullt af truflun, stundum þyrlur, stundum krakkar, stundum foreldrar sem vilja horfa á eitthvað hágæða efni eins og: "heimsins mest sjokkerandi lýtaaðgerðir sem framkvæmdar hafa verið á Britney Spears," eða "Maður er nefndur 2; vatnsglas dauðans!" Ekkert varið í það.

Um daginn var einhver glæpaþáttur. "Pressa." Örugglega ávaxtapressa. Mynnti mig á Danska þáttinn á RÚV. Í danska þættinum á RÚV var eitt morð, og það er aldrei rætt um það, heldur er spunnið mikið um einhvern pólitíkus sem virðist ekki koma málinu neitt við, vörubílstjóra og ... örugglega fullt af öðrum hlutum. Allt þetta tekur 20 þætti.

Íslenski þátturinn fjallar um bíl sem finnst uppi á landi, og í kringum það ráfar fólk sem á krakka og rífst og lið sem heldur að það sé blaðamenn og auðvitað eitt stykki pólitíkus.

Þessir þættir eiga það sameiginlegt að fjalla um ljótt og óáhugavert fólk í óáhugaverðum aðstæðum.

Munurinn á danska þættinum og þeim íslenska er sá, að danski þátturinn er vel leikinn og minnir þess vegna á þokkalega sápuóperu. Íslenski þátturinn er skelfilega illa leikinn, og minnir þess vegna á íslenskt leikrit, eins og voru á RÚV hér í denn, áður en þeir fóru að senda út í lit.

Í danska þættinum var einhver drepinn. Veit ekki enn með þann íslenska. Kannski gerist eitthvað frumlegt. Týndi maðurinn birtist undir lokin sprelllifandi, og hefur allan tímann verið að vinna við gerð Kárahnjúkastíflunnar undir pólsku dulnefni eða eitthvað.

Berum þetta saman við amerísku formúluna: fullt af fólki sem virðist hafa sloppið úr príslista rannsakar morð á fólki sem virðist hafa dottið úr príslista, og leysir málið með hátækni og tónlistarmyndböndum í einungir einum þætti, án þess að pólitíkusar eða einhverjir krakkar komi þar mikið nærri.

Eða breska formúlan, þar sem hvert morðið á fætur öðru er framið í 800 manna bæ úti á landi, á gömlum kalli/gamalli kellingu af gömlum kalli/gamalli kellingu, og bæjar-spæjarinn leysir málið með því að rápa um og tala við alla. Og allir eru í afar smekklegum antík jakkafötum síðan 1930.

Ég ætla ekkert að leggja á mig að horfa á þessa íslensku þætti. Ég man hvernig síðasta glæpasería var: skelfilegt torf. Tjáði mig um það 3 feb 2006.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli